149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

dómstólar o.fl.

70. mál
[13:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Með frumvarpinu er lagt til að settur verði á fót nýr dómstóll, Endurupptökudómur, sem komi í stað endurupptökunefndar.

Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu úr allsherjar- og menntamálanefnd. Ég legg það nú fram að nýju með breytingum sem taka mið af þeim umsögnum sem nefndinni bárust undir meðferð málsins. Lúta þær veigamestu að því að í stað þess að fjórir dómendur verði skipaðir í Endurupptökudóm, eins og áður var lagt upp með, verði þeir fimm. Þá verði tveir dómarar skipaðir að undangenginni auglýsingu í stað eins, eins og lagt var til með fyrra frumvarpi. Ég mun víkja nánar að samsetningu dómsins á eftir.

Með stofnun Endurupptökudóms yrðu tekin af öll tvímæli um að dómsvaldið væri einvörðungu á hendi dómenda í samræmi við fyrirmæli 2. gr. stjórnarskrárinnar og jafnframt að úrlausnir slíks sérdómstóls um hvort hróflað skuli við endanlegum dómum Hæstaréttar, Landsréttar eða héraðsdóms væru endanlegar og kæmu ekki til endurskoðunar dómstóla á grundvelli 60. gr. stjórnarskrárinnar. Á núverandi skipan, sem komið var á fót með lögum nr. 15/2013, er sá ágalli að endurupptökunefnd, er tilheyrir framkvæmdarvaldinu í skilningi íslenskra laga, er fengið vald til að leysa úr því hvort skilyrði séu til þess að endurupptaka mál sem dómstólar hafa leyst endanlega úr og hrófla þannig við úrlausn handhafa dómsvaldsins. Má færa fyrir því rök að þetta fyrirkomulag brjóti í bága við þrígreiningu ríkisvaldsins sem mælt er fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að forseti Íslands og önnur stjórnarvöld fari með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar eiga dómstólar úrskurðarvald um lögmæti stjórnvaldsákvarðana og á grundvelli þess stjórnarskrárákvæðis hefur Hæstiréttur vísað frá máli, sem endurupptökunefnd hafði ákveðið að endurupptaka, vegna þess að ekki hafi verið að lögum skilyrði til þess að verða við beiðni þess efnis, samanber dóm Hæstaréttar frá 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015.

Enn fremur hefur Héraðsdómur Reykjavíkur með úrskurði sínu frá 25. janúar 2017 komist að afdráttarlausri niðurstöðu um að þetta fyrirkomulag brjóti í bága við 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Hæstv. forseti. Í þessu ljósi legg ég til að settur verði á stofn nýr sérdómstóll, Endurupptökudómur, sem komi í stað endurupptökunefndar sem verði lögð niður. Lagt er til með þessu frumvarpi að Endurupptökudómur verði að meiri hluta skipaður embættisdómurum sem komi frá hverju hinna þriggja dómstiga. Með því vinnst tvennt. Annars vegar er með tryggt að meiri hluti dómenda komi úr röðum handhafa dómsvaldsins og njóti þar með verndar 61. gr. stjórnarskrárinnar þannig að þeim verður almennt ekki vikið úr embætti nema með dómi. Hins vegar verður því slegið föstu með þessari skipan að um sé að ræða dómstól í skilningi stjórnarskrárinnar á sama hátt og Félagsdómur og Landsdómur. Samhliða er lagt til að tveir af fimm dómendum hins nýja dómstóls verði skipaðir að undangenginni auglýsingu og komi úr röðum annarra en dómara, fyrrverandi dómara eða starfsfólks dómstólanna. Það er í samræmi við annað aðalmarkmiðið með breytingunni sem gerð var þegar endurupptökunefnd var komið á fót, að aðrir en dómarar komi að ákvörðun um endurupptöku dómsmála.

Lagt er til að um umsóknar- og skipunarferlið fyrir þessar tvær stöður gildi sömu reglur og um skipun dómara almennt og lýst er í 12. gr. laga um dómstóla, þ.e. að dómnefnd fari yfir umsóknir og láti ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn, að óheimilt sé að skipa í embættið mann sem nefndin hefur ekki metið hæfastan meðal umsækjenda nema ráðherra telji rétt að leggja aðra tillögu fyrir Alþingi o.s.frv. Um störf nefndarinnar fari að öðru leyti eftir reglum sem um hana gilda og settar eru á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga um dómstóla.

Þá er lagt til að þrír dómendur taki þátt í meðferð hvers máls og að sá dómandi sem tilnefndur er af því dómstigi sem dæmdi það mál sem óskað er endurupptöku á verði ekki einn þeirra. Að öðru leyti komi það í hlut dómsforseta, sem verður samkvæmt frumvarpinu sá hæstaréttardómari sem skipaður er í dóminn, að ákveða hvernig dómur er saman settur í hverju máli fyrir sig. Taki sá dómandi sem kemur úr röðum hæstaréttardómara ekki sæti í máli tekur sá dómandi sem kemur úr röðum landsréttardómara við hlutverki dómsformanns. Með því fyrirkomulagi er annars vegar tryggt að aðrir en einungis embættisdómarar taki þátt í meðferð hvers máls og er sá möguleiki raunar fyrir hendi að dómur verði myndaður af báðum þeim dómendum sem skipaðir eru að undangenginni auglýsingu ásamt einum embættisdómara. Hins vegar er tryggt að dómandi taki ekki þátt í afgreiðslu á beiðni um endurupptöku á dómi uppkveðnum af samdómara eða samdómurum hans.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að skilyrði til endurupptöku einkamála verði rýmkuð frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum þurfa þau þrjú skilyrði sem nefnd eru í 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála öll að vera uppfyllt til þess að mál fáist endurupptekið. Tvö þessara skilyrða eru sérstaks eðlis þar sem leiða verður sterkar líkur að því annars vegar að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum sem fer fram á endurupptöku verði ekki um það kennt og hins vegar að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum.

Þriðja skilyrðið sem einnig verður að vera til staðar er almennara, en þar er vísað til þess að önnur atvik mæli með því að leyfi verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Lagt er til að nægilegt sé að öðru hvoru sérstöku skilyrðanna sé fullnægt til að mál fáist endurupptekið, enda séu hin almennu skilyrði jafnframt fyrir hendi, þ.e. að atvik mæli með því að leyfi til endurupptöku verði veitt og að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. Þá eru lagðar til breytingar á skilyrðunum með skýrleika að leiðarljósi. Þannig muni skilyrði a-liðar taka til þeirra tilvika þegar sterkar líkur eru að því leiddar með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verði ekki um það kennt. Skilyrði b-liðar muni aftur á móti taka til annarra tilvika en þeirra sem varða málsatvik. Samkvæmt því nægir að fram hafi komið ný gögn eða upplýsingar um annað en málsatvik og sterkar líkur hafi verið leiddar að því að þau muni breyta fyrri niðurstöðu dómsmálsins í mikilvægum atriðum. Með nýjum gögnum eða upplýsingum í þessum skilningi er átt við öll þau gögn eða upplýsingar sem leitt gætu til breyttrar niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum, þar á meðal úrlausnir alþjóðlegra dómstóla á borð við Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólinn.

Þá er að lokum lagt til að Endurupptökudómur hafi aðsetur hjá dómstólasýslunni og að sama skapi eru lagðar til umtalsverðar breytingar er varða meðferð endurupptökumála. Þær taka mið af því að um er að ræða dómstól en ekki stjórnsýslunefnd og ég tel ekki ástæðu til að rekja þær hér ítarlega en vísa til greinargerðar og athugasemda með lagafrumvarpinu sem liggja frammi.

Virðulegur forseti. Ég legg þá til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.