149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa komið hingað upp á undan mér og kvartað yfir þeirri framkomu að við fáum ekki að sjá, alla vega ekki við sem erum í stjórnarandstöðunni, þessa samgönguáætlun. Ég var á ferð á sunnanverðum Vestfjörðum með atvinnuveganefnd ásamt hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem talaði um það hérna áðan og við fengum þessa gusu yfir okkur á morgunfundi með bæjarstjórn á Patreksfirði, hverju það sætti hvernig samgönguáætlun liti út. Við horfðum bara í augun hvort á öðru og vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið. Þetta var mjög óþægileg tilfinning og ég fór að hugsa: Ja, nú hefurðu ekki leitað nógu vel í skilaboðum eða hvar áttu að leita að því, Siggi minn, hvar samgönguáætlunin er? [Hlátur í þingsal.] Ég er fljótur að efast fyrst og fremst um sjálfan mig þegar svona lagað kemur upp á. Mér finnst þetta afleit framkoma og ekki til að auka virðingu þingsins. Það er alveg á kristaltæru.