149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

um fundarstjórn.

[15:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég skil vel óþreyju þingmanna, sérstaklega þeirra sem ekki hafa séð þetta plagg. En eins og fram hefur komið er það til umfjöllunar í stjórnarflokkunum. Það breytir því ekki að í vinnu við að leggja fram samgönguáætlun sem plagg fyrir þingið hefur samgönguráð unnið umtalsverða vinnu. Haft hefur verið samráð við allt og alla á Íslandi; landshlutasamtök, sveitarfélög, fagaðila og öllu því fylgt í hvívetna. Þegar við skrifuðum undir merkilega viljayfirlýsingu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á föstudaginn var ekki óeðlilegt að ráðherra notaði tækifærið og talaði um helstu áformin í samgönguáætlun. Áætlunin var hins vegar ekki kynnt uppi á vegg í heild, eins og menn vita, vegna þess að það verður ekki hægt að gera fyrr en búið er að leggja hana fram í þinginu.

Ég tek undir með hv. þingmönnum um að það er óheppilegt að þessi tímalína sé í málinu. Ég vonast til að málið komist sem fyrst til þingsins og að við getum rætt samgönguáætlun í þaula og að allir hafi skjalið undir höndum. (Forseti hringir.) En það er ekki frá mér komið þótt einhverjir fjölmiðlar hafi komist yfir slíkt plagg.