149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

sjúkraflutningar Rauða krossins.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég held að það sé afar mikilvægt að halda því til haga þegar við tölum um sjúkraflutninga að þeir eru mikilvægur hluti af heilbrigðisþjónustunni. Þetta snýst ekki bara um að koma veiku eða slösuðu fólki milli staða heldur ekki síst að veita oft fyrstu hjálp og fyrstu aðstoð á vettvangi. Um það hefur verið fjallað í skýrslum. Ég fékk m.a. skýrslu sem laut að sjúkrafluginu og sjúkraþyrlum o.s.frv. þannig að það er undir í heildarendurskoðuninni. Þegar við erum að þétta net heilbrigðisstofnana, fækka þeim og búa til heilbrigðisstofnanir í heilbrigðisumdæmum, liggur það í hlutarins eðli að álag á sjúkraflutninga hlýtur að aukast. Þannig hefur það verið.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um samskipti við Rauða krossinn er það rétt sem fram kemur í inngangi hans að um tiltekna þætti í samskiptum ríkis og Rauða krossinn hefur verið ágreiningur um langa hríð. Sá ágreiningur hafði varað lengur en ég hef gegnt embætti heilbrigðisráðherra. En málin standa þannig að nú er einmitt verið að leita leiða til að ná sátt um málið, þ.e. að ná sameiginlegum skilningi á því hvaða verðmæti eru þarna undir og þá líka hagstæðu og hagfelldu uppgjöri á þeim fjármálalegu samskiptum sem þarna hafa verið fyrir hendi, ekki síst er varðar framlag ríkisins í sjúkrabílasjóð, sem er sjóður til þess að standa straum af kaupum á nýjum bílum. Þessi samskipti eru í gangi núna þessar vikurnar og mánuðina. Ég hef fyrir mitt leyti fallist á þau sjónarmið að þessar sáttaumleitanir sem verið hafa í gangi með aðkomu þriðja aðila þurfi að fá þann tíma sem þarf til þess að klárast (Forseti hringir.) áður en næstu skref verða tekin.