149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[16:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Á Íslandi ríkir dæmalaust góðæri. Við erum ríkt samfélag. Við erum í óskastöðu til að gera vel við almenning allan af því að við erum ríkt samfélag, íslenska þjóðin er rík.

En á sama tíma og ástandið er nánast fordæmalaust velja stjórnvöld að beita öryrkja slíkum reglum að enginn annar hópur í samfélaginu þarf að líða annað eins. Þetta óréttlæti hefur verið kallað króna á móti krónu skerðing og felst í því að hver einasta króna sem örorkulífeyrisþegi aflar sér er skert á móti af sérstakri framfærsluuppbót. Þannig höfum við búið til slíkt kerfi að á sama tíma og við verjum talsverðum fjármunum hins opinbera í að auka virkni þeirra öryrkja sem eiga þess kost að afla sér fjár, verjum fjármunum til námskeiðahalda, til virknieflingar, starfsendurhæfingar, til að búa til hlutastörf eða annað, þá verður ekki nokkur einasti fjárhagslegur ávinningur af því fyrir þann sem annars þarf að draga fram lífið á örorkulífeyri.

Nú skal minnt á það að einstaklingur getur orðið öryrki af ýmsum ástæðum, t.d. vegna fötlunar, slyss, sjúkdóms. Því getur starfsgeta þeirra verið mjög fjölbreytileg þó að í öllum tilvikum sé hún skert á einhvern hátt, eða í flestum tilvikum a.m.k. Þá er þessi hópur einnig á öllum aldri, sumir eru ungir, aðrir eldri, sumir einstæðingar, aðrir fjölskyldufólk. Örorkulífeyrir er eins og allir vita skammarlega lág fjárhæð og því ætti það að vera sérstakur ávinningur fyrir hvern þann sem á þess einhvern kost að starfa að hluta til, þrátt fyrir örorku sína. Það ætti að vera sérstakur ávinningur, enda hafa stjórnvöld eins og áður sagði beinlínis farið í átak til eflingar þeim sem hafa skerta starfsgetu en geta þó gert eitthvað, sérstakt átak í samvinnu við Vinnumálastofnun, Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp, fóru í samstarfsverkefni til að skapa störf fyrir þennan hóp, til að virkja hæfileika þeirra, auka virkni, samfélagslega virkni, og auka þannig getu og lífsgleði, því að allir vita hvað einangrun getur verið mikil skerðing á lífsgæðum.

Stjórnvöld virðast, a.m.k. hvað þetta varðar, vita hversu mikilvæg virknin er þegar kemur að lífsgæðum einstaklinga. En þrátt fyrir það letja íslensk stjórnvöld þann tiltekna hóp beinlínis til virkni með reglum sínum um krónu á móti krónu skerðingu.

Og hvaða skilaboð fá öryrkjar með því? Ekki vinna. Ekki afla aukapeninga til að eiga möguleika á betra lífi. Ekki vera virkari samfélagsþegn sem getur mögulega aukið lífsánægju þína, því að við höfum ákveðið að hverja einustu krónu sem þú aflar þér inn með því móti ætlum við að taka til baka.

Þegar aðrir landsmenn eiga möguleika á auknu ráðstöfunarfé með meiri vinnu og hærri launum er í tilviki öryrkjans lagður á 100% skattur. Hver einasta króna skal tekin af þeim eina hópi og jafnvel þeir stjórnmálamenn sem hæst hrópa um skattpíningu og hversu slæm skattheimta almennt sé segja ekki orð. Þeir eru fjarverandi við umræðuna.

En þetta er ekki nóg því að skerðingin kemur líka til vegna vaxta og verðbóta á innstæðum á bankareikningum eða fjármagnstekjum. Þetta á líka við um aðrar tekjur, til að mynda mæðra- og feðralaun, dánarbætur og úttekt séreignarsparnaðar. Það er í rauninni passað upp á að sá ákveðni hópur landsmanna geti ekki aukið ráðstöfunartekjur sínar.

Þeirri skammarlegu framkomu verður að linna. Við á þingi getum gert það með því að greiða leið málsins sem mælt var fyrir í dag. Við getum gert það með því að greiða leið þessa þarfa frumvarps. Við vitum öll að á endanum græðum við öll, ekki aðeins þeir sem þurfa ekki að þola óréttlátar skerðingar heldur samfélagið í heild sinni.