149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[17:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Enn eru málefni sem þjóðinni eru til nokkurs vansa á döfinni, kjör öryrkja. Hér leggur hv. þm. Halldóra Mogensen fram breytingu við almannatryggingalöggjöfina sem ætlað er að rétta löngu tímabæran hag öryrkja að nokkru. Þá breytingu styð ég auðvitað heils hugar og það var mér ánægja að fá að vera meðflutningsmaður á frumvarpinu.

Króna á móti krónu skerðing er hugtak sem gengur endurtekið sem rauður þráður í umræðunni um kjör öryrkja. Þetta er ótrúlegt og ógæfulegt fyrirbæri sem hamlar mannsæmandi kjörum og virkar letjandi og lamandi og hefur áhrif á líf og heilbrigði þegna okkar. Því getum við og skulum breyta snarlega, ekki bara með því að tala hér, það dugar ekki, heldur verðum við að gera það í verki.

Menn ræða ótt og títt og dálítið af þunga um að þetta kosti mikið. Verum minnug þess að þetta fyrirbæri varð til með nokkurri sátt og af skilningi við aðstæður þegar íslenska þjóðin var á heljarþröm. En það virðist nánast ómögulegt að breyta því. Að því er virðist dugar ekki eitt mesta velsældarskeið sem íslenska samfélagið hefur gengið í gegnum til að rétta hag þessa hóps. En látum nú hug fylgja máli, látum ekki aðeins orðin duga heldur látum efndir koma til.

Þetta málefni hefur lengi verið í umræðunni og ekki verið að tala fyrir því í fyrsta sinn í dag. Nú mun vera starfshópur að verki sem vonandi nær lendingu og niðurstöðu þannig að aðilar geti orðið sáttir. En fyrr en varir er umræðan farin að snúast um starfsgetumat sem sá hluti þegna okkar geldur nokkurn varhuga við. Ég held að starfsgetumat, ef við framkvæmum það með hagsmuni einstaklinganna í huga, geti verið heillaráð en sporin virðast hræða. Það er ekki óeðlilegt. Um það ættum við að ná sátt og traust þarf auðvitað að ríkja á milli aðila og það eru stjórnvöld, vinnumarkaðurinn og öryrkjarnir sjálfir. Það er nokkuð sennilega í land varðandi þetta.

Fagfólk, sérfræðingar, hefur bent á að hugsanlega gæti króna á móti krónu skerðingin verið mannréttindabrot. Samkvæmt alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Íslandi er aðili að skuldbinda ríki sig til að gæta sérstaklega að viðkvæmum hópum og tryggja að allir geti lifað mannsæmandi lífi. Valfrjáls bókun við fyrrgreindan samning gerir borgurum aðildarríkjanna kleift að kæra meint brot á samningnum til nefndarinnar sem starfar á grundvelli samningsins séu þeir ósáttir eftir að hafa reynt öll innlend réttarúrræði. Ekki er þó hægt að kæra meint brot til nefndarinnar hafi aðildarríki ekki fullgilt bókunina. Það hefur Ísland nefnilega ekki gert þótt Sameinuðu þjóðirnar muni hafa mælst til þess.

Finnland er eina norræna ríkið sem hefur undirritað viðaukann. Hin ríkin hafa hvorki skrifað undir hann né fullgilt bókunina. 45 af 139 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hafa skrifað undir og 21 fullgilt hana.

Frú forseti. Um leið og hvatt er til þess að unnið verði að bragarbótum, breytingum á lögum um almannatryggingar samanber þetta frumvarp og óréttlátum skerðingum, þá ættum við á Íslandi, ein auðugasta þjóð í heimi, að vera í forystu á alþjóðavettvangi um þessi mannréttindamál og fullgilda ákvæði Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Frú forseti. Við skulum byrja í túnfætinum heima, í garðinum hjá okkur sjálfum, og leiðrétta skerðingar sem króna á móti krónu kerfið hefur valdið þegnunum.