149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Bretar hafa ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu. Það gerðu þeir meira að segja með þjóðaratkvæðagreiðslu þann 26. júní 2016. Theresa May, forsætisráðherra Breta, virkjaði 50. gr. í Lissabon-sáttmálanum þann 29. mars árið 2017. Þar með hófst með formlegum hætti hið lögbundna útgönguferli samkvæmt reglum Evrópusambandsins.

Því ferli skal lokið eigi síðar en föstudaginn 29. mars árið 2019. Ég get gefið upp klukku líka ef menn vilja. Bretar sjálfir hafa einnig lögbundið þann dag í eigin lögum.

Óhætt er að fullyrða að líkur á að samningar náist í tæka tíð fara dvínandi, enda sýnast hugmyndir Breta og Evrópusambandsins um hvernig tengslum skuli háttað eftir að Bretar hætta í Evrópusambandinu gerólíkar. Bretar virðast vilja njóta samvinnu Evrópusambandsins þar sem þeim þóknast en hafna því að takast á við þær skyldur sem samvinna innan Evrópusambandsins felur í sér.

Hér virðist sem breska ríkisstjórnin vilji bæði eiga kökuna og éta. Brexit-ferlið hefur líka haft áhrif á pólitíska umræðu hér á landi og í sumum herbúðum leynir þórðargleðin sér ekki. Hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í viðtali við RÚV fyrir tveimur dögum, með leyfi forseta:

„Stóra málið kannski fyrir okkur Íslendinga þegar við horfum á þetta. Við hljótum að draga þá ályktun að við getum alls ekki verið inni í Evrópusambandinu. Því allt það sem hefur verið sagt um það að það sé ekkert mál að fara út ef okkur líkar ekki við veruna, það eru röksemdir sem enginn getur notað aftur.“

Þetta er með miklum eindæmum. Túlkun og greining hæstv. ráðherra er algerlega út í hött. Auðvitað er hægt að ganga úr Evrópusambandinu. Það munu Bretar gera (Forseti hringir.) nema breska þjóðin kjósi að grípa í taumana. Vandi bresku ríkisstjórnarinnar felst ekki í því að Bretar komist ekki út, vandinn felst í því að hún getur ekki sætt sig við hvaða áhrif útganga mun hafa á breskt samfélag (Forseti hringir.) og það er þar sem hundurinn liggur grafinn.

(Forseti (SJS): Ég vil biðja hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)