149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu og það er ljóst að grípa þarf til allra ráða. Það er ánægjulegt að heyra að ráðherra er nú þegar byrjaður og hefur sett fram aðgerðaáætlun. Oft höfum við rætt um að það þurfi þjóðarsátt um einhver málefni og það er einmitt það sem mig langar svolítið að velta upp hér vegna þeirrar grafalvarlegu stöðu sem við stöndum hér frammi fyrir, hvort hægt sé að fá þjóðarsátt um akkúrat þetta mál. Ég geri mér grein fyrir að ráðherra getur ekki einn gert það sem gera þarf, ef svo má að orði komast, þó svo að hann beri ábyrgð á málaflokknum.

Í klippu á samfélagsmiðlum í gær sem ég sá sagði einn að það væri auðveldara að verða sér úti um fíkniefni en að panta pítsu, það tæki skemmri tíma. Ef það er veruleikinn verða allir í samfélaginu að tala saman, við þurfum að ná öllum þráðum saman.

Mig langar að lokum að tala um þessa þræði. Ég vil biðja ráðherra að huga að landinu öllu. Það er til Frú Ragnheiður, en það er einnig til Ungfrú Ragnheiður. Það er til BUGL, það er líka til BUG-teymi. Og svo ég nefni það að lokum eru til göngudeildir SÁÁ. Það er ekki útlit fyrir að göngudeild SÁÁ á Akureyri verði starfrækt áfram nema ráðherra beiti sér raunverulega í málinu. Ég þakka fyrir umræðuna.