149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir þessa mikilvægu umræðu. Mig langar að ræða skaðaminnkun. Fólk notar vímuefni hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ríki heims hafa brugðist við vanda fíkniefnaneytenda með ólíkum hætti og vil ég beina sjónum þingsins að þeim sem fastir eru í viðjum fíknarinnar og hvernig við getum brugðist við þegar ofskömmtun á sér stað, ofskömmtun sem í hverjum mánuði dregur einstaklinga til dauða.

Naloxon er lyf sem getur bjargað mannslífum. Það kemur samstundis við inntöku í veg fyrir móttöku ópíumlyfs í líkama, endist hver skammtur rúma klukkustund og er lyfið ýmist gefið í sprautuformi eða með nefúða. Víða um heim hafa stjórnvöld tekið þá ákvörðun að hafa þetta lyf ekki lyfseðilsskylt heldur aðgengilegt öllum þeim sem á þurfa að halda gegn gjaldi að sjálfsögðu. Lyfið sjálft er ekki skaðlegt þannig að það þarf ekki að óttast ofneyslu þess, heldur eins og áður sagði blokkerar það tímabundið upptöku ópíumlyfs í líkamanum.

Þetta lyf er notað í sjúkrabílum og á sjúkrahúsum hér á Íslandi, en ég tel nauðsynlegt að við komum þessu lífsnauðsynlega lyfi inn víðar, svo sem í lögreglubíla, en lögreglan er iðulega fyrst á staðinn þegar óskað er eftir sjúkrabíl. Þetta lífsnauðsynlega lyf þarf einnig að vera til reiðu í gistiskýlum, búsetuúrræðum vímuefnaneytenda, og hreinlega í apótekum svo fjölskyldur og aðstandendur ópíumfíkla geti átt einn skammt ef illa fer.

Þetta lyf bjargar mannslífum. Þetta er, að því er virðist, ein minni háttar reglugerðarbreyting sem hægt er að fara í án mikils tilkostnaðar. Ég vildi bara leggja þetta inn hjá hæstv. heilbrigðisráðherra af því að þetta getur bjargað mannslífum með litlum tilkostnaði.