149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum. Að því frumvarpi stendur sú sem hér stendur ásamt öðrum hv. þingmönnum Viðreisnar, þeim Jóni Steindóri Valdimarssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Þorsteini Víglundssyni.

Ísland er í fararbroddi þegar kemur að málefnum sem varða jafnrétti kynjanna. Það er full ástæða fyrir okkur að vera stolt af þeirri stöðu. Um aldamótin voru t.d. sett framsækin lög um fæðingarorlof sem tryggðu báðum foreldrum rétt til slíks orlofs. Fyrir utan fyrirsjáanleg jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn eiga lögin stóran þátt í að tryggja ungbörnum mikilvægan tíma með báðum foreldrum.

Það skiptir máli að sækja alltaf lengra, vera gagnrýnin á þá stöðu sem við erum í hverju sinni og skoða hvað betur má fara. Markmið með frumvarpi því sem hér er lagt fram er annars vegar að tryggja rétt forsjárforeldra sem búa ekki saman til að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barns síns í sameiningu og hins vegar að gæta réttar barna til að njóta fullrar þátttöku og íhlutunar beggja foreldra í daglegu lífi sínu.

Ljóst er að aðstöðumunur foreldra með sameiginlega forsjá er enn þó nokkur, þótt hlutir hafi færst til betri vegar á undanförnum árum. Í barnalögum, nr. 76/2003, er tekið fram eins og er að lögheimilisforeldri hafi, með leyfi forseta, „heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf“. Þrátt fyrir að foreldrar hafi sameiginlega forsjá og skuli leitast við að hafa samráð um þau mál er slíkur aðstöðumunur til þess fallinn að skapa ósátt og skerða rétt barns til fullrar íhlutunar beggja foreldra í lífi sínu. Enn fremur á lögheimilisforeldri rétt á margvíslegum fjárstuðningi umfram foreldri sem ekki deilir lögheimili með barni sínu þrátt fyrir að deila forsjá.

Þar sem ég mæli fyrir frumvarpi um tvöfalt lögheimili barna er rétt að fara yfir sögu þess máls á Alþingi. Fyrst aðeins um tölfræðina. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands, frá 2015 reyndar, voru tæplega 13.000 fjölskyldur skráðar með einstætt foreldri, samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar, þ.e. svokallaðar kjarnafjölskyldur þar sem annaðhvort móðir eða faðir býr með börnum sínum en er ekki í sambúð. Það var árið 1992 sem sameiginleg forsjá var skilgreind í lögum og gafst þá foreldrum sem skildu möguleiki á því að fara með sameiginlega forsjá í fyrsta sinn. Ári síðar sömdu 10% foreldra um slíkt í skilnaðarferli. Árið 1996 voru það 35% og um aldamótin var hlutfallið orðið 50%. Árið 2011 var það komið upp í 90%, þá sömdu 90% fráskilinna foreldra eða foreldra í skilnaðarferli um sameiginlega forsjá. Í 91% þeirra tilfella sem foreldrar sömdu um sameiginlega forsjá árið 2011 var lögheimilið hjá móður.

En aftur að ferlinu. Það var vorið 2014 sem þingsályktunartillaga Bjartrar framtíðar um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum var samþykkt á Alþingi. Samkvæmt tillögunni var innanríkisráðherra falið að skipa starfshóp sem skyldi skila tillögum um hvernig mætti útfæra jafnt búsetuform barna sem búa hjá báðum foreldrum til skiptis. Markmið starfshópsins átti að vera að finna leiðir til að eyða þeim mikla aðstöðumun sem er á milli lögheimilisforeldris og hins forsjárforeldrisins sé það svo á annað borð að foreldrar deili forræðinu. Hópurinn átti að taka afstöðu til þess hvort taka ætti upp kerfi sem heimilaði tvöfalt lögheimili eða eitthvert annað fyrirkomulag jafnrar búsetu sem gæti hentað betur af einhverjum ástæðum.

Eins og gengur og gerist breyttist tillaga Bjartrar framtíðar frá 1. umr. fram að endanlegri útgáfu. Upphaflega gekk tillagan út á að frumvarp um málið yrði lagt fyrir á haustþingi 2015 en það ákvæði var tekið út við vinnslu og samþykkt málsins í þinglegri meðferð og ekkert frumvarp er enn komið fram á þeim tíma sem liðinn er. En starfshópurinn var skipaður eins og tillagan kvað á um og skilaði viðamikilli skýrslu sem lögð var fyrir 145. þing, þ.e. fyrir þremur árum. Skýrslan fer vítt og breitt yfir svið þessa málaflokks og þar er margt mjög gott að finna.

Frumvarpið sem hér er lagt fram leggur til breytingar á barnalögum, lögum um lögheimili og aðsetur, lögum um tekjuskatt, lögum um félagslega aðstoð, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og loks lögum um grunnskóla. Ég ætla að fara stuttlega yfir þær breytingar og rökstuðning vegna þeirra.

Í I. kafla frumvarpsins er mælt fyrir breytingu á barnalögum. Þar er kveðið á um heimild foreldra sem ekki búa saman en fara með sameiginlega forsjá til að skrá lögheimili barnsins hjá báðum foreldrum og hafa þau jafna heimild til að taka þær afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fyrr hafa verið nefndar, svo sem hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Kjósi foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá að skrá lögheimili barns aðeins hjá öðru þeirra hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka framangreindar ákvarðanir. En eins og er tiltekið í lögunum skulu foreldrar sem fara saman með forsjá barns þó í öllum tilvikum leitast við að hafa samráð áður en þeim málefnum barnsins er ráðið til lykta.

Þá er lagt til í frumvarpinu að kjósi foreldrar með sameiginlega forsjá að skrá lögheimili barns hjá báðum forsjárforeldrum falli niður greiðsla meðlags.

Herra forseti. Verði þetta frumvarp að lögum er ljóst að breytingar þarf á lögum um lögheimili en skilgreining lögheimilis er samkvæmt lögum staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu.

Þar segir jafnframt, aftur með leyfi forseta:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Herra forseti. Ef börn deila jafn miklum tíma á heimili hvors foreldris, eiga þar sitt herbergi og aðstöðu, leikföng, fatnað, dvelja þar helming mánaðar u.þ.b. og kalla heimili sitt, er erfitt að sjá að það falli ekki undir skilgreiningu lögheimilis. Það er heldur eiginlega ekki ásættanlegt að svara því til að breytingin sé kerfislega of flókin vegna þess að þegar samfélagið okkar hefur þróast þannig að foreldrar sem ekki búa saman velja í sífellt ríkari mæli að hafa sameiginlega forsjá því að þeir sjá og telja að það sé barninu fyrir bestu þá á kerfið að ráða við að bregðast við.

Því leggjum við til breytingar á lögum um lögheimili í II. kafla frumvarpsins þess efnis að börn geti við þær aðstæður sem lýst hefur verið átt lögheimili hjá báðum forsjárforeldrum.

Nýverið fékk ungur faðir bréf frá ríkisskattstjóra þar sem stóð, með leyfi forseta, að:

„… þeir teljist einstæðir foreldrar sem hafa börn sín hjá sér og annist einir framfærslu þess í lok tekjuárs. Sá sem greiðir meðlag er ekki framfærandi í þessu sambandi. Samkvæmt þjóðskrá býr barnið hjá móður sinni og telst hún því annast framfærslu þess. Þér verðið þannig ekki talinn einstætt foreldri og eigið þar með ekki rétt til barnabóta. Umrædd merking á framtali yðar í reitinn Einstætt foreldri er því ekki tekin til greina og nafn barns yðar hefur verið strikað út af skattframtali yðar.“

Þessi tiltekni faðir er líkur fjölmörgum öðrum forsjárforeldrum í því að skipta öllum útgjöldum með hinu forsjárforeldrinu. Barnið hans á tvö heimili, tvö herbergi og tvo foreldra en samkvæmt ríkinu er móðirin eini aðilinn sem sér um barnið og fær því barnabætur en ekki faðirinn. Þetta er skýrt dæmi um foreldra sem vilja að barnið fái að eyða jafn miklum tíma með báðum foreldrum og að báðir taki fjárhagslega ábyrgð og ábyrgð á uppeldinu.

Ef foreldrar skipta útgjöldum barnsins á milli sín eiga þeir rétt á því að skipta þeim bótum sem því fylgja á milli sín. Ef barnið býr á tveimur stöðum er rétt að skrá svo í þjóðskrá. Flutningsmenn leggja því til eftirfarandi breytingu í III. kafla frumvarpsins sem varðar breytingu á lögum um tekjuskatt, og viðbótin er tvíþætt, hún er annars vegar:

„Hafi barn tvöfalt lögheimili samkvæmt lögum um lögheimili og skipta heimilisfesti hjá báðum forsjárforeldrum yfir tekjuárið, þá teljast báðir forsjárforeldrar framfærendur barnsins og skal reikna helming barnabóta til hvors forsjárforeldris.“

Hin breytingin:

„Hafi barn tvöfalt lögheimili skulu tekjur annars forsjárforeldris ekki koma til skerðingar á þeim tekjutengdu barnabótum sem greiðast með barni til hins foreldrisins.“

IV. kafli frumvarpsins kveður á um breytingar á lögum um félagslega aðstoð. Þar segir í nýjum málslið:

„Hafi börn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum, sem að öðru leyti uppfylla skilyrði laga þessara, er heimilt að greiða helming mæðra- og feðralauna til hvors þeirra.“

Og jafnframt önnur viðbót:

„Séu framfærendur barna tveir, hvor með sitt lögheimili, og lögheimili barna skráð hjá báðum, er heimilt að greiða helming umönnunargreiðslna til hvors þeirra.“

Í V. kafla frumvarpsins er talað um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem segir í nýrri málsgrein:

„Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi skal það hafa rétt til þjónustu eða aðstoðar í báðum sveitarfélögum ef skilyrði laga þessara eru að öðru leyti uppfyllt.“

Loks í VI. kafla um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, í nýrri málsgrein:

„Skráning lögheimilis barns hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi takmarkar ekki rétt þess til þjónustu á grundvelli laga þessara.“

Það er áhugavert að skoða þær umönnunargreiðslur sem greiðast samkvæmt reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Þar er Tryggingastofnun gefin heimild til að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlum barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Einnig er heimilt að veita aðstoð til framfærenda barns með alvarleg þroskafrávik og barna með hegðunarvandamál.

Hugtakið framfærandi er hins vegar ekki skilgreint í lögum né í reglugerðinni og því skilgreint sem lögheimilisforeldrið af Tryggingastofnun. Með breytingu á þeim lögum ætti að vera ljóst að ef um tvöfalt lögheimili er að ræða verði greiðslunum skipt í tvennt.

Að lokum leggja flutningsmenn til breytingar á lögum um grunnskóla, samanber VII. kafla frumvarpsins. Þar er lagt til að við bætist ný málsgrein svohljóðandi:

„Hafi barn skráð lögheimili hjá báðum foreldrum sem búa þó hvort í sínu sveitarfélagi skulu foreldrar taka ákvörðun um í hvoru sveitarfélagi barnið skuli njóta skólavistar og tilkynna það sveitarstjórnum beggja sveitarfélaga. Ákvörðun gildir þar til önnur slík ákvörðun hefur verið tekin af báðum foreldrum.“

Hér er þess einfaldlega getið að foreldrar verða að velja það sveitarfélag sem þau kjósa að barnið njóti skólavistar hjá og því er ekki um mikla breytingu að ræða, nema að það er ákvörðun sem er á hendi beggja foreldra en ekki aðeins á hendi annars þess.

Herra forseti. Á árunum 2006–2010 upplifðu árlega 550–600 börn lögskilnað foreldra sinna. Engar upplýsingar liggja fyrir um að þær tölur hafi lækkað. Þá áætlar Hagstofa Íslands að tæplega 36% hjónabanda endi með skilnaði. Sé litið til þess að sameiginleg forsjá sé meginregla að íslenskum lögum og að almennt sé leitast við að jafna rétt forsjárforeldra skýtur skökku við að öðru foreldri séu veitt talsverð réttindi umfram hitt á grundvelli skráningar lögheimilis barna. Að mati flutningsmanna er frumvarp þetta til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á fjölda barna sem eiga foreldra sem kjósa að búa ekki saman en ala börnin sín upp saman undir sameiginlegri forsjá.

Ég hef lokið yfirferð minni í bili og óska þess að málinu verði vísað til þinglegrar meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd að lokinni umræðu í þingsal.