149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Húsnæði er ekki lúxus sem á að standa einungis vel stæðu fólki til boða heldur er þvert á móti ein af grunnþörfum allra. Það er ekki einungis til að skýla sér fyrir veðri og vindum, þótt það sé auðvitað nauðsynlegt, heldur er tryggt húsnæði staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi. Við köllum það heimili, herra forseti.

Samkvæmt nýlegum fréttum mun hæstv. ráðherra innan skamms verða félags- og barnaverndarráðherra. Í því ljósi er rétt að minna ráðherrann á að börn hafa sérstaka þörf fyrir gott og öruggt heimili eigi þau að fá bestu skilyrði til að þroskast og dafna. Og ég endurtek: Ég er ekki að tala um húsaskjól í þrengstu merkingu þess orðs heldur varanlegt heimili án þess að fólk hrekist um á erfiðum leigumarkaði og sé sífellt slitið upp frá vinum og skólum.

Þessi málaflokkur skiptir okkur gríðarlegu máli og það þýðir ekki að vona eða benda á að nú sé meira byggt og markaðurinn finni jafnvægi. Það er beinlínis nauðsynlegt að stjórnvöld komi að heilbrigðri þróun á kerfisbundinn hátt og komi í veg fyrir reglubundið ófremdarástand sem skapast í óstöðugu hagkerfi okkar. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki sinnt því sl. ár og það er ömurlegt að upplifa metnaðarleysi núverandi ríkisstjórnar sem ver nánast engu í þetta mál umfram það sem löngu er búið að semja um.

Hæstv. ráðherra. Það verður að grípa til aðgerða sem fjölgar íbúðum fyrir tekjulágt fólk, félagslegu húsnæði, og byggja varanlega upp traustan og manneskjulegan leigumarkað. Á Íslandi er nefnilega stór hópur fólks með lágar tekjur sem teljast þó of háar fyrir fjárhagsaðstoð. Þetta fólk getur illa fótað sig á húsnæðismarkaðnum. Það hefur bókstaflega verið skilið eftir eftir að verkamannaíbúðakerfið var lagt niður. Hér búa líka efnaminni fjölskyldur sem eiga erfitt með að kaupa sér þak yfir höfuðið á sama tíma og mikill skortur er á leiguíbúðum, leiguverð allt of hátt og réttindi leigutaka allt of illa tryggð. Það er ekki einu sinni nægt framboð á hagkvæmum íbúðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur með meðaltekjur.

Að lokum er rétt að minnast á unga fólkið sem hefur setið eftir í húsnæðismálum. Kaupmáttur þess hefur ekki aukist til jafns á við eldri kynslóðir. Á sama tíma hefur húsnæðisverð hækkað um 43% umfram almennt verðlag, töluvert meira en annars staðar á Norðurlöndum. Þeim hópum er svo fleygt í fangið á gróðaveitum á leigumarkaði þar sem ýmsir sjá hag sinn í að hagnast á neyð þeirra.

Hæstv. ráðherra ætti nú að renna blóðið til skyldunnar. Í ríkisstjórn sem flokkur hans átti aðild að var verkamannabústaðakerfið nefnilega lagt niður. Hefði það ekki verið gert væru um 14.000 fleiri íbúðir í landinu af þeim toga. Það þarf ekki mikla speki til að átta sig á því að aðstæður væru töluvert aðrar ef þetta hefði ekki verið gert.

Um 50.000 manns eru á dýrum leigumarkaði á Íslandi og margir hrekjast um. Miðsvæðis í Reykjavík kostar um 190.000 kr. á mánuði að leigja tveggja herbergja íbúð og hvergi í nokkurri höfuðborg á Norðurlöndum er jafn dýrt að leigja og hér, ekki í Kaupmannahöfn, ekki einu sinni í Ósló, herra forseti, og utan höfuðborganna er leiguverð einnig hæst á Íslandi.

Stjórnvöld verða einfaldlega að beita sér fyrir því að hlutur leiguhúsnæðis sem ekki er rekið með hagnaðarsjónarmiði verði miklu stærri en nú er. Fólk með lægri tekjur á í mestum vandræðum með að eignast húsnæði og býr þar af leiðandi við óöryggið sem ég nefndi áðan og um margt fjandsamlegan leigumarkað. Rannsóknir sýna að fólk á leigumarkaði hefur það verr fjárhagslega og börn á leigumarkaði eru líklegri til að líða skort en önnur börn. Því ætti þetta að verða sérstakt kappsmál nýs barnamálaráðherra.

Samfylkingin er í þessum töluðu orðum að leggja fram tillögur sem ég vona að ráðherra kynni sér og nýti. Þær eru í átta liðum og er ætlað að bæta húsnæðismarkaðinn. Ég geri mér grein fyrir því að þær munu ekki leysa allan okkar vanda en þær eru nauðsynleg fyrstu skref í öfuga átt við þau sem stjórnvöld hafa tekið síðustu ár, ýmist með skeytingarleysi eða beinlínis vondum aðgerðum. Fyrstu skref í þá átt er að tryggja öllum húsnæðisöryggi, sem er ein af forsendum þess að hér þrífist fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð við þau ríki sem við berum okkur helst við, Norðurlöndin.

Mig langar að spyrja: Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir frekari stofnstyrkjum til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum? Og í öðru lagi og ekki síður: Er ráðherra tilbúinn að leggja fram frumvarp sem eykur skyldu allra sveitarfélaga þegar kemur að félagslegu húsnæði þannig að nokkur sveitarfélög standi ekki uppi ein með verkefnið?