149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:08]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessa umræðu. Ég get tekið undir þær áherslur sem hann lagði í upphafsmáli sínu þar sem mátti skilja að húsnæðismál væru velferðarmál vegna þess að húsnæðismál eru velferðarmál. Það er þess vegna sem þau eiga heima í félagsmálaráðuneytinu og það er þess vegna sem við höfum líka verið að undanförnu að styrkja stoðir húsnæðismálanna innan stjórnsýslunnar og innan ráðuneytisins. Það var m.a. gert með mikilvægu frumvarpi sem var samþykkt á síðasta þingi sem kvað á um auknar skyldur Íbúðalánasjóðs til þess að breytast í svokallaða húsnæðisstofnun, með því að festa betur húsnæðisáætlanir í sessi, stefnumótun, greiningu og annað sem er gríðarlega mikilvægt í því skyni að húsnæðisstofnunin geti gegnt líku hlutverki og systurstofnanir annars staðar á Norðurlöndunum.

Við erum líka að stíga skref í þá átt að styrkja betur stjórnsýsluna innan húsnæðismálanna með því að um áramót, ef þingsályktunartillaga nær fram að ganga á Alþingi, færast reglur um Mannvirkjastofnun og regluverk í kringum byggingarmarkaðinn yfir til félagsmálaráðuneytisins. Þá verður þetta orðið sambærilegt því sem er á Norðurlöndunum en það er ekki þannig hjá neinni Norðurlandaþjóð nema okkur að húsnæðismálin og ábyrgðin á þeim málaflokki sé hjá einu ráðuneyti og svo byggingarmarkaðurinn hjá öðru ráðuneyti. Þetta er líka að gerast um áramótin. Með því fáum við aukinn slagkraft í þennan málaflokk sem sannarlega skiptir miklu máli.

Hv. þingmaður leggur mikla áherslu á leigumarkaðinn í sínu máli. Áður en ég kem að því langar mig að nefna eitt sem kom einnig fram í hans máli og snýr að aðgerðum fyrir fyrstu kaupendur. Við viljum auðvitað hafa öflugan leigumarkað og eigum að efla hann og styrkja, en það er gríðarlega mikilvægt að tryggja líka aðgerðir til þess að gera ungu fólki kleift að fara út á húsnæðismarkaðinn.

Ríkisstjórnin vinnur að tillögum í þá veruna, félagsmálaráðuneytið í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Þar er horft til úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar hafa beitt, auk þess sem verið er að vinna og skoða tillögur sem byggja á ráðstöfun lífeyrissparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, svokallaðri svissneskri leið. Það er að verða vakning í því að það sé skynsamlegt að nýta lífeyrissparnað með einhverjum hætti inn í fasteignamarkaðinn, það er líka umræða um slíkt meðal verkalýðshreyfingarinnar núna, aukin umræða um að lífeyriskerfið eigi að koma af meiri krafti inn í húsnæðismálin. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verður sem lýtur að því á þingi ASÍ síðar í næsta mánuði.

Þegar kemur að leigumarkaðnum er í gangi talsvert mikil vinna í þeim efnum innan félagsmálaráðuneytisins. Í fyrsta lagi erum við í mjög góðu og þéttu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins um það hvaða breytingar þurfi að gera á almenna íbúðakerfinu, en við erum að auka í almenna íbúðakerfið um 800 milljónir á næsta ári nái fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 fram að ganga. Það þarf vissulega að gera miklar breytingar á þessu kerfi. Það voru mikil tímamót þegar við stigum þetta skref. Þá var Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. En það eru breytingar sem þarf að gera. Við erum að fara yfir það með verkalýðshreyfingunni og Sambandi íslenskra sveitarfélaga með hvaða hætti við getum flýtt framkvæmdum þar, hvað við getum gert til að þetta gerist hraðar. Við erum líka að ræða við aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt sé að styrkja húsaleigulögin þegar kemur að leigjendum. Ég vænti þess að niðurstaða úr þessari vinni komi snemma á næsta ári.

Íbúðalánasjóður hefur líka verið að skoða leiðir til að efla leigumarkaðinn og er m.a. í skoðun þar og hefur verið í talsverðan tíma að stofna sérstakt óhagnaðardrifið leigufélag þar inni sem hafi einmitt það markmið sem hv. þingmaður talaði um, að reka leigufélag eftir óhagnaðardrifnum sjónarmiðum.

Ég er nýkominn frá Finnlandi þar sem við áttum góða fundi með systurstofnun Íbúðalánasjóðs og húsnæðismálaráðherra þar í landi. Þar er það nú bara svo, ágætu þingmenn, að ríkissjóður rekur þar leigufélag. Það er hægri stjórn í Finnlandi í dag. Á næsta ári — það hefur gengið svo vel, þeir eru að byggja 400–500 íbúðir á hverju ári — ætlar þetta ríkisrekna leigufélag og þessi hægri stjórn sem nú er þar við völd að auka eigið fé þessa félags um 50 milljónir evra. Ég vonast til þess að við munum horfa í auknum mæli til óhagnaðardrifinna leigufélaga, hvort sem þau eru á herðum ríkisins, sveitarfélaga eða í samvinnu við aðila vinnumarkaðar eða aðra aðila.

Hins vegar er eitt sem skiptir máli að koma líka inn á hérna og ég vil undirstrika að sá sem hér stendur er að beita sér í þeim málum sem hv. þingmaður spurði um, (Forseti hringir.) en það þarf fleiri lóðir. Það þarf fleiri lóðir vegna þess að ekkert af því sem var nefnt hér að framan gengur (Forseti hringir.) eftir ef við fáum ekki aukið framboð af lóðum og byggingarlandi til þess að byggja á.