149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag. Húsnæðisvandinn er sá vandi sem hefur verið hvað mest aðkallandi í samfélaginu í dag og við höfum svo sannarlega ekki farið varhluta af þeim hrópum sem að okkur hafa beinst. Ég ætla ekki að mæla bót þeirri lóðaskortsstefnu sem rekin er í boði t.d. Reykjavíkurborgar, lóðaskortsstefnu sem á sér eiginlega enga hliðstæðu vegna þess að það er enginn skortur á lóðum. Maður áttar sig ekki alveg á því hvers vegna ástandið er eins og raun ber vitni og hvað eiginlega liggur þar að baki.

Við megum kannski líta okkur pínulítið nær, hingað til löggjafarsamkundunnar, hingað til löggjafans sem heldur uppi okurvaxtastefnu, verðtryggingu á húsnæðislán og húsnæðisliðurinn sem er inni í húsnæðisláninu er í rauninni búinn að skapa heimilum landsins milljarða á milljarða ofan í álögur á lán þeirra. Hvers vegna byrjum við ekki bara á byrjuninni?

Virðulegi forseti. Markmið Íbúðalánasjóðs er að koma til móts við þá og honum er ætlað að koma til móts við þá sem þurfa aðstoð við að koma sér þaki yfir höfuðið. Hvað hefur hann svo gert? Hann hefur selt frá sér til ofurhagnaðardrifinna fyrirtækja hundruð íbúða í kippum í stað þess að setja þær út á markaðinn, okkar Íbúðalánasjóður, til hagnaðardrifinna fyrirtækja sem ekki nokkur einasti meðalmaður hefur efni á að leigja af öðruvísi en að fá hjálp annars staðar frá eða safna skuldum. Er ekki orðið tímabært að við lítum okkur pínulítið nær og Íbúðalánasjóður sem sennilega er með hæstu vaxtatöluna og það á þá sem minnst mega sín? Ég get lofað ykkur því að hið hagnaðardrifna okurleigufélag sem keypti íbúðirnar og fékk lán hjá Íbúðalánasjóði greiddi ekki 4,2% í vexti.