149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Íbúðalánasjóðs um samanburð á húsnæðismörkuðum Norðurlandanna og nágrannaþjóða kemur ýmislegt áhugavert fram. Íbúðaverð er lágt á Íslandi miðað við nágrannaþjóðir en leiguverð og vextir eru hæstir. Einnig kemur fram að íbúðaverð sé lágt miðað við tekjur, en í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Á Íslandi er þetta hlutfall það lægsta meðal þeirra 39 Evrópulanda sem gögnin ná til og það segir okkur að íbúðaverð hér á landi sé lágt miðað við tekjur.“

Þetta er mjög áhugavert. Bæði er íbúðaverð lágt á Íslandi og íbúðaverð lágt miðað við tekjur. Á sama tíma er leiguverð í hæstu hæðum. Þetta skýtur skökku við þar sem fólk sem leigir fyrir hæsta leiguverð samanburðarlandanna stenst ekki greiðslumat fyrir láni fyrir sömu íbúð. Við skulum staldra aðeins hérna við og spyrja okkur hvert vandamálið sé. Margir segja að vandamálið sé háir vextir og verðtryggingin. Það er vissulega vandamál út af fyrir sig, en hvaða áhrif myndi það hafa að lækka vextina og losna við verðtrygginguna? Ef eitthvað er að marka þennan samanburð og reynslu okkar af húsnæðismarkaði hér á landi á undanförnum áratugum mun íbúðaverð hækka um það sem nemur því sem vextir lækka. Þegar meira svigrúm er til að greiða af lánum, af því að íbúðaverð er lágt miðað við laun, notar markaðurinn einfaldlega það svigrúm.

Með því að lækka vexti mun fólk fara að taka hærri lán sem eru þá með hærri afborganir, en a.m.k. hættir okkur að svíða undan óréttlæti og ógagnsæi verðtryggingarinnar.

Sá kostnaður færist að lokum inn í húsnæðisverðið. Þannig hættum við að borga íbúðina margfalt, íbúðin mun einfaldlega hækka í verði um það sem munar þar á milli. En þetta skiptir mjög miklu máli í heildarsamhenginu því að húsnæðisverðið, húsnæðismarkaðurinn og séreignarstefnan er hinn hluti lífeyrissjóðakerfisins okkar. Ef við erum komin á lífeyri og eigum ekki húsnæði, okkar eigin eign, (Forseti hringir.) þá duga lífeyristekjurnar alls ekki. Og aðstoð við að hjálpa fólki við að kaupa íbúð hjálpar ekkert rosalega mikið, sérstaklega ekki í núverandi ástandi þegar það vantar íbúðir á annað borð, (Forseti hringir.) þannig að það verður líka, sérstaklega í núverandi ástandi, að byggja. Það er mjög einfalt.