149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarp hæstv. ráðherra fjallar um forsendur fyrir verðlagningu á fiski og það erum við sem erum að setja þær forsendur og um leið erum við að sýsla með verðið.

Færeyingar buðu út kvóta í apríl, maí, júní og ágúst á þessu ári, alls 15% kvótans í Færeyjum, og niðurstaðan var þessi, kílóið af þorski fór á 38,7 íslenskar kr. Frumvarpið sem við ræðum nú gerir ráð fyrir að kílóið af þorski fari á 13,8 kr. Munurinn er 180% og þorskurinn er veiddur af Færeyingum á fjarlægum miðum, við Rússland, Svalbarða og Noreg, í Barentshafi, en við rukkum ekki veiðigjald fyrir fisk sem þar er veiddur og því á ekki að breyta með frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Kílóið af kolmunna, í útboði Færeyinga, fór á 1.444% hærra verði en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og makríllinn á 2.432% hærra verði en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Þennan mun þarf að skýra og er ekki hæstv. ráðherra sammála mér í því að þennan mun þarf hann og ráðuneyti hans að skýra, að það verði ekki einungis látið útgerðinni eftir? Eigendur auðlindarinnar þurfa að fá skýringu á þessum mikla mun.