149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:01]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég játa að ég skil minna í málflutningi hv. þingmanns nú en ég gerði fyrir sex árum. Hún hefur fundið þessu frumvarpi allt til foráttu en nú sýnist mér þetta snúast um afstillingu á prósentutölu.

Ég ætla ekki að fara í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni, eins og meiri hluti ræðu hv. þingmanns fór út í, en hv. þingmaður hefur mikið talað um Færeyjar og mig langar að nýta tækifærið til að ræða kerfið þar. Ég er sammála því að það er mjög spennandi að fylgjast með því sem verið er að gera, ekki bara í Færeyjum heldur víða annars staðar almennt hvað varðar sjávarútveg, gjaldtöku og ýmislegt fleira tengt því. Það er ekki hægt að taka einn hluta af kerfinu í Færeyjum og segja að það sé hið fullkomna kerfi, við hljótum að þurfa að gera þá kröfu til sjálfra okkar að við horfum á kerfið í heild sinni. Vill hv. þingmaður að við tökum upp aðferð Færeyinga við að innheimta gjald af veiði á fiskstofnum þar sem, eins og fram hefur komið, engin veiðigjöld eru greidd innan eigin lögsögu? (Forseti hringir.) Vill hv. þingmaður að við göngum alla leið og tökum upp kerfi Færeyinga?