149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurning hvenær gjaldtaka er of há eða of lág. Niðurstaða mats atvinnuveganefndar verður að byggja á einhverjum grunni og það verður að nást eitthvert samkomulag um það vegna þess að mér getur þótt einhver fjárhæð há meðan hv. þingmanni þykir sú hin sama tala of lág. Við þurfum þá að reyna að búa til einhvern sameiginlegan skilning á því hvernig við ætlum að reyna að meta stöðuna og komast að samkomulagi um það til að ná einhverri niðurstöðu sem hægt er að bera fram. Þannig lít ég á að atvinnuveganefnd þurfi að vinna. Ég reyndi að vinna þetta frumvarp á þessum grunni og bið hv. þingmann að hafa í huga að þetta er þriggja flokka stjórnarsamstarf sem kallar á að menn gangi til þess verks af heilindum og samstarfsvilja. Það þýðir að allir verða að vera tilbúnir til að gefa eftir af sínum ýtrustu óskum og það er misjafnt eftir málum. Í þessu tilfelli hefur þetta gengið mætavel.

Ég skynja ekkert annað en góða samstöðu á milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Ég skynja sömuleiðis góðan stuðning í þetta meðal einstakra þingflokka á hinu háa Alþingi og fagna því vegna þess að það er löngu tímabært að koma málum sem lúta að gjaldtöku í sjávarútvegi til betri vegar en þau hafa verið. Það kerfi sem við erum að leggja af hér er algjörlega óásættanlegt að mati okkar sem stöndum að þessu frumvarpi. Ég fagna hverjum þeim sem styður okkur á þeirri vegferð að bæta úr þeim ágöllum sem þar er að finna og hlakka til að takast á við framhaldið.