149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

vinnumarkaðsmál.

[13:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Um fátt hefur meira verið rætt undanfarna daga en sjónvarpsþáttinn Kveik sem fjallaði um svik og svindl á íslenskum vinnumarkaði. Hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra sagði síðan í þættinum Silfrinu á RÚV á sunnudaginn að staða þessara mála kæmi honum nokkuð á óvart.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á sérstakar umræður um svik og svindl á vinnumarkaði sem haldnar voru í þessum sal að mínu frumkvæði, fyrir rúmum átta mánuðum. Lítið virðist hafa breyst síðan þá fyrir utan lögin um starfsmannaleigur og keðjuábyrgð í byggingariðnaði sem sannarlega var kominn tími til að litu dagsins ljós en nægja ekki til að taka á þessari alvarlegu stöðu.

Í sérstökum umræðum fyrir rúmum átta mánuðum var öllum ljóst í þessum sal hver staðan var og hún hefur ekkert batnað. Hvers konar samfélag lætur það viðgangast mánuðum saman að fólk sé rænt launum sínum? Og leyfir fyrirtækjum þar að auki að hámarka gróða og svindla sér framar í samkeppni með blekkingum og þjófnaði og rukka fyrir svefnpláss dýru verði?

Það er augljóst að hér vantar yfirsýn og ábyrgð. Hefur hæstv. ráðherra til að mynda hrundið af stað rannsóknum á aðstæðum erlends vinnuafls hér á landi? Er von á breytingartillögum við fjárlagafrumvarpið þannig að eftirlitsstofnanir og lögregla hafi fjármagn til að sinna hlutverki sínu hvað þetta varðar? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra tryggja að fyrirtæki geti aldrei hagnast á brotastarfsemi, heldur beri af henni mikinn fjárhagslegan skaða?