149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:34]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir yfirlýsingu um að óþarfi sé að breyta einhverju sem virkar. Ég er hjartanlega ósammála hv. þingmanni. Þarna kannski þvælist stjórnsýsluhjartað mitt fyrir mér af því ég tel að í þessu einstaka tilviki eigi frestun réttaráhrifa miklu betur við þar sem það er einstök aðgerð sem beinist gegn þeim rekstraraðilum og gegn því verkefni sem við stöndum frammi fyrir núna. Lagasetning er almennari. Lagasetning, eins og ég hef sagt nokkrum sinnum hér í dag, er til frambúðar, varðar alla og gefur að mínu mati ekki góð skilaboð til þeirra sem hefja rekstur og þurfa að gangast undir þau ákvæði laganna sem varða umhverfisvernd, skipulag og þess háttar, sem þurfa að fara í gegnum alla þessa þætti.

Það er það sem ég hef áhyggjur af varðandi lagasetningu á þessum tímapunkti. Ég hef rætt við of marga lögfræðinga á síðasta sólarhring sem segja auðvitað ýmislegt en eru þó sammála um að fyrst svo er komið að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi tekið þann pól í hæðina að neita að afgreiða beiðni um frestun réttaráhrifa — sem ég tel að hafi ekki verið rétt, ég held að það sé rangt lagalega að nefndin hafi vísað þeirri beiðni frá. Ef ég les lögin, ég er búin að lúslesa lögin og lögskýringargögn með lögunum, þá er það mitt mat að úrskurðarnefndin átti að fjalla um það og fresta réttaráhrifum þessarar ákvörðunar sinnar. Mér finnst það hafið (Forseti hringir.) yfir allan vafa. En það er svona. Gert er gert. Borðað það sem borðað er. Það verður að hafa það.

Ég er á því að svona almenn lagasetning í þessu (Forseti hringir.) sértæka dæmi geti verið okkur skaðleg.