149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:57]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í máli hv. þingmanns kemur fram sú spurning hvort ekki sé eitthvert úrræði innan stjórnsýslunnar sem leysir þetta án þess að komi til löggjafar á Alþingi. Ég vil bregðast við því og spyrja hv. þingmann nánar út í það. Sú leið sem hv. þingmenn hreyfa gengur út á að ef Matvælastofnun ætlar að stöðva, eins og henni ber að gera samkvæmt lögum, geti aðilar sem eiga þar undir kært þann úrskurð eða skotið honum til ráðherra. Með því frestast eingöngu ákvörðun Matvælastofnunar en réttaráhrifin af úrskurðinum, til að mynda í því máli sem um ræðir, um að rekstrarleyfi sér fallið úr gildi, eru áfram við lýði. Það mál bjargar því ekki þeirri stöðu sem upp er komin og áfram verða fyrirtækin í óleyfi.

Annað sem ég vil koma inn á sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns eru efasemdir um að sú leið sem ráðherrann leggur fyrir þingið dugi. Þetta er mjög einföld leið. Brugðist er við afleiðingum úrskurðarins, því sem við tekur eftir að leyfið er fallið úr gildi samkvæmt þeim úrskurði, eða dómi ef svo ber undir, ef við horfum á þetta almennt, að þá hafi ráðherrann heimild til að gefa út bráðabirgðaleyfi. Þetta er mjög einföld löggjöf og tekur á þeim vanda sem er uppi. Umhverfisráðherra hefur sambærilega heimild.

Og hvað gerir ráðherra? Hann mun væntanlega, ef lög verða samþykkt hér sem ég vona innilega, fara eftir þeim lögum, rétt eins og hæstv. umhverfisráðherra.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann: Hvaða skilaboð hefur hann til Vestfirðinga, til annarra, um þær leiðir sem hún vill sjá? Hvaða leiðir hefur hv. þingmaður upp á að bjóða til að leysa stöðuna sem upp er komin?