149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega ástæða til að við vöndum okkur en ég held að þetta mál sé þannig vaxið að við eigum ekki að vanda okkur það mikið að öll byggðin á sunnanverðum Vestfjörðum fari á hliðina á meðan. Ég verð að segja það.

Mér finnst ástæða til að ræða í því tilviki að við erum ekki að tala um neitt sem heitir mat á umhverfisáhrifum. Það hefur þegar verið gert. Öll leyfi hafa verið veitt. Það er hinar sjálfstæðu stjórnsýslustofnanir sem standa hlið við hlið og benda hver á aðra í sambandi við meðferð á því máli sem um er rætt.

Mikilvægt er að árétta í sambandi við það að leyfin eru ógilt á grundvelli þess að mati á umhverfi var áfátt en ekki vegna þess að skilyrði í starfsferli um mengunarvarnir eða annað slíkt hafi ekki verið uppfyllt, ekki á nokkurn hátt, enda er annað fyrirtækjanna sem um ræðir með MSC- vottun. Mér skilst að það sé eina fyrirtækið í heiminum sem hefur fengið þá vottun þrjú ár í röð og það fyrir hvaðeina, hreinlæti, ómengaða afurð og fyrirmyndarframleiðslu.

Ég er ekki hingað komin til að verja laxeldi, það er alveg á hreinu. Ég er hingað komin til verja brothætta byggð sem er brothætt í kjölfarið á frábæru framsali kvótans á sínum tíma. Við eigum brothættar byggðir allt í kringum landið þar sem kvótinn fluttist burtu úr byggðarlaginu, þar sem fólkið flúði úr byggðarlaginu því að ekki var við neitt að vera.

Ef við erum að tala um sunnanverða Vestfirði og þau 300 störf sem um er að ræða er spurningin: Hvað ætli það væri í stóra samhenginu í Reykjavík, miðað við fólksfjölda? Kannski 10 þús. manns. Myndi það eitthvað koma við okkur ef 10 þús. Reykvíkingar yrðu atvinnulausir allt í einu?

Sá formgalli sem við ræðum eða hin svokallaða valkostagreining sem úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál ákveður að fella úr gildi, bæði rekstrar- og starfsleyfi þessara tveggja fiskeldisfyrirtækja, felur í sér að athuga átti hvort meiri möguleiki væri á því að vera með lokaðar kvíar í sjó. Það gekk hins vegar ekki upp vegna þess að enn sem komið er þola þær ekki nema í kringum 1,5–1,80 m ölduhæð. Svo er hægt að fara upp á land með þetta. Já, það er hægt ef við höfum hugsanlega þrjár Mjólkárvirkjanir á takteinum, nóg af vatni og svo náttúrulega landrými, sem er ekki til staðar.

Sú stöð sem við í atvinnuveganefnd heimsóttum fyrir skemmstu stendur á 6 þús. fermetra grunni og það er bara litla seiðaeldið, sem er náttúrlega glæsilegt, ég verð að viðurkenna það, og fékk mig til að líta hlutina allt öðrum augum. Það að komast í snertingu við byggðina, eins og við gerðum í atvinnuveganefnd á sínum tíma, og við uppbygginguna og þann dugnað sem á sér stað og þá bjartsýni sem framleiðslan hefur vakið í þeirri brothættu byggð sem sunnanverðir Vestfirðir hafa svo sannarlega verið varð til þess að fá mann til að horfast í augu við staðreyndir málsins á allt annan hátt.

Ég skil ekki af hverju við erum að þessu. Það eina sem við erum að tala um er sanngirni gagnvart þeim rekstraraðilum sem vissu ekki betur og stóðu í þeirri góðu trú að þeir gætu haldið áfram að fjárfesta og eru búnir að gera það fyrir sjálfsagt yfir 30 milljarða, þá tek ég með laxeldisfyrirtæki sem ekki hefur misst leyfi sitt, Arnarlax. En að hugsa sér að það skuli vera út af formgalla sem kom í rauninni aldrei til umræðu hjá Skipulagsstofnun, sem heimsótti okkur í morgun. Skipulagsstofnun kom með þá yfirlýsingu að hún væri sannarlega meðmælt því að fresta réttaráhrifum niðurstöðu úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, a.m.k. á meðan verið væri að ganga frá því hvernig hlutirnir ættu að fara.

Svo ég nefni það þegar talað er um hvort við treystum hinum sjálfstæðu stjórnsýslustofnunum okkar til þess að vinna verk sitt þá eigum við að geta gert það. En hvað er það þegar við sjáum augljóslega að ákveðnir aðilar, í þessu tilviki úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál, fara í engu eftir því, hvorki rannsóknarreglu né öðru. Úrskurðarnefndin bað ekki um neinar umsagnir frá Skipulagsstofnun, ekki neitt. Hún kvað upp úrskurð sinn algjörlega án þess að vera í nokkrum samskiptum við Skipulagsstofnun. Eru það vönduð vinnubrögð miðað við þá rosalegu, ótrúlegu, íþyngjandi ákvörðun sem hún tók? Ég segi nei, mér finnst það ekki vönduð vinnubrögð.

Virðulegi forseti. Mér finnst við ekki þurfa að ræða frekar hvort við séum að vanda til verka eða ekki vegna þess að við eigum eftir að takast á við hin raunverulegu mál sem lúta að laxeldi, hina raunverulegu umhverfisvá, ef um hana er að ræða, hina raunverulegu stöðu. Það gerum við hér. Við ættum a.m.k. að byrja á að athuga hvers vegna við erum kjörin á þing. Við erum fyrst og síðast kjörin til að hugsa um fólkið í landinu, til að vernda byggðirnar í landinu, til að ganga á undan með góðu fordæmi og fyrst og síðast sýna sjálf virðingu og vanda okkur í verki.

Ég spyr: Hvers vegna var aldrei talað um það við aðilana þegar þeir sóttu um rekstrar- og starfsleyfi að þeir ættu líka að koma með valkostagreiningu, jafnvel þótt hún væri ekki í kortunum? Jú, það þótti ekki ástæða til. Ef ég hefði t.d. ætlað að reka fyrirtæki, stofna prjónastofu, væri voðalega asnalegt ef sagt hefði verið við mig: Heyrðu, þú verður að velja hvort þú vilt fara í fiskrækt eða vera með saumastofu eða eitthvað annað.

Leyfið sem sótt var um laut eingöngu að sjókvíaeldi og því að vera með seiðaræktun í kvíum á landi. Eigum við þá að fara í valkostagreiningar og segja: Nei, blessaðir setjið frekar upp prjónastofu? Það er jafnraunhæft að segja, vegna þess að hvorki kom til greina að vera með lokaðar kvíar, vera með þær uppi á landi né neitt annað af því sem um er rætt og ekki heldur þegar verið er að tala um geldfiskinn.

Það er ekki í boði að koma með erfðabreytt matvæli inn í þá ræktun sem hefur verið MSC-vottuð í allan þennan tíma fyrir hreina afurð, fyrir utan það náttúrlega að fiskurinn verður rosalega gallaður og aðferðin sem er notuð núna við að gelda fiskinn ekki viðurkennd. Fiskurinn verður blindur, hann hryggbrotnar og ýmislegt fleira. Það eru ýmsir ágallar og mikil afföll geta orðið af fiski.

En að því sem við erum að tala um og höfum eytt deginum í, ekkert annað skiptir máli en að við erum eingöngu, og hæstv. sjávarútvegsráðherra og vonandi hæstv. umhverfisráðherra líka, að fara fram á að fresta réttaráhrifum, ekkert annað en að fresta réttaráhrifum.

Við þurfum ekki að vera í neinu umhverfismati hér eða spá í það hvort að við eigum að vera með laxeldi eða ekki. Við eigum að hugsa hvort við getum á einhverjum tímapunkti komið upp þannig atvinnugreinum að við getum boðið smáskaðabætur til þeirra brothættu byggða sem við rústuðum með framsali kvótans á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Það var ómetanlegt að fá til okkar í morgun þær stjórnsýslustofnanir sem hafa komið að málunum, Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun. Allir þeir aðilar hafa komið að þeim málum og gáfu út leyfin og þótti ekkert athugavert við það, enda er ekki eins og leyfin gangi í gegn á einni nóttu. Þetta er margra ára ferli. Auðvitað hljóta rekstraraðilar sem eru með slíka rækt að gera hlutina í góðri trú. Þeir hljóta að treysta þeim leyfum sem þeim hafa þegar verið veitt.

Til gamans langar mig að geta þess að verið er að reka mál gegn litlu laxeldi eða ræktarfyrirtæki fyrir austan og fellur vonandi dómur í því innan mánaðar. Ég veit ekki alveg hvaða fyrirtæki er um að ræða en þetta var það sem við fengum að vita í morgun hjá atvinnuveganefnd. Spurning mín var: Standa sömu kæruaðilar að því máli og að málinu sem um er rætt? Svarið kom ekki á óvart: Já, það eru sömu aðilar. Þrátt fyrir að þetta litla ræktarfyrirtæki hafi fengið leyfi árið 2012 og sé búið að ganga í gegnum þetta ferli í einhver ár þá allt í einu sex árum seinna áttuðu þeir sig á því að best væri að kæra það og reyna að koma því út úr atvinnugrein sinni.

Við skulum sjá hvernig dómstólar bregðast við kærunni sem einkennist að mínu mati af einskæru tómlæti því að maður á ekki að fatta sex árum seinna að eitthvað sé öðruvísi en maður vildi hafa það, sérstaklega ekki ef leita á úrskurðar fyrir dómstólum.