149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að afsaka að ég hafi ekki verið hérna strax til taks í dag en að sjálfsögðu var lítið mál að bregðast við óskum um að koma.

Mig langar aðeins að bregðast við því sem hér hefur verið beint að mínu ráðuneyti sem hefur með að gera þau leyfi sem snúa að starfsleyfum. Ég tók það fram hérna undir óundirbúnum fyrirspurnum í dag, við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, að við höfum ekki enn fengið umsókn til okkar inn í ráðuneytið um undanþágu frá starfsleyfi sem er möguleiki á að sækja um. Ef slík umsókn berst mun ráðuneytið að sjálfsögðu fara yfir það mál og verður að gefa því þann tíma sem til þess þarf.

Ég vil benda á að í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er tilgreindur sérstakur tími sem sá ráðherra hefur þá til að fara yfir beiðni eða umsókn um leyfi til bráðabirgða. Þar eru ákveðin tímamörk sett.

Síðan langar mig að bregðast aðeins við tilvitnun áðan til svokallaðra Bakkalínumála þar sem var farið í gang með lagasetningu á Alþingi. Það mál er annars konar, einfaldlega vegna þess að þar átti að fella úr gildi leyfi sem voru þegar til umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar og þar með hefði úrskurðarnefndin ekki haft tækifæri til að fjalla um þau sem hefði verið að öllum líkindum brot á alþjóðasamningum. Það er hins vegar ekki þannig í þessu máli. Úrskurðirnir eru fallnir og það er ekki verið að hrófla við þeim með þessum málum.