149. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[22:43]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um tillögu frá sjávarútvegsráðherra um bráðabirgðaúrræði varðandi fiskeldið. Þannig að það sé á hreinu eru allir með það mjög vel í kollinum að eyða þarf óvissuástandi. Allir eru mjög vel meðvitaðir um það.

Það eitt réttlætir þó ekki að ekki sé vandað til verka og að vinnubrögð séu ekki þannig að við getum verið stolt af. Það verður að segjast alveg eins og er um málið að innan nefndarinnar var ekki staðið að því eins og sómi er að þegar við ætlum að afgreiða lög frá Alþingi, almenn lög frá Alþingi, af því að búið er að segja að þetta séu almenn lög, á að réttlæta það.

Af hverju segi ég það? Jú, m.a. af því að hafnað var þeirri ósk okkar sem erum í stjórnarandstöðunni að fá fleiri gesti til að fara yfir málið, aðra en þá sem höfðu fjallað um málið áður og ráðuneytið benti á, þá fínu sérfræðinga sem mættu fyrir nefndina. Þetta voru mjög öflugir sérfræðingar sem við berum að sjálfsögðu traust til en það hefði verið til bóta að fá fleiri sem höfðu ekki komið að málinu áður og væru þá ekki með þau sömu sjónarmið sem höfðu áður verið lögð til grundvallar, bara svo að það sé nefnt. Við fengum ekki fiskeldisfyrirtækin, við fengum ekki rétt til að biðja veiðiréttarhafa laxveiðiáa o.fl. að mæta á fundinn né samfélagið fyrir vestan. Þeir aðilar fengu ekki að koma á fund nefndarinnar.

Ég spyr: Hví í ósköpunum var ekki hægt að kalla þing saman í gær? Við vissum alveg að það þurfti að fara að ræða þetta. Af hverju var ekki hægt að kalla saman þing í gær til þess að við hefðum þá alla vega haft daginn í dag til að fara yfir betur yfir málið en raun ber vitni?

Síðan tala forsvarsmenn Vinstri grænna, hvort sem það er formaður atvinnuveganefndar, formaður þingflokks eða forsætisráðherra, um betri og bætt vinnubrögð. Alltaf er fallið á fyrsta prófinu þegar á reynir. Við skulum halda því til haga.

Það er m.a. þess vegna sem ég set fyrirvara á nefndarálitið, af því að vinnubrögðin eru ekki þannig að þau styðji bæði við atvinnugreinina sem um ræðir, við málsmeðferð alla á þingi né fleiri þætti. Út á það gengur fyrirvari minn, sem er tvíþættur.

Ég vil draga fram það sem skiptir máli og kom til að mynda fram í áliti sérfræðinganna sem áður höfðu fjallað um málið og voru beðnir um það af hálfu ráðuneytisins, við fengum ekki aðra sérfræðinga. Á þeim skamma tíma komu sérfræðingarnir með ákveðnar ábendingar sem hjálpuðu málinu mjög. Ég spyr: Hvað hefðum við fengið til viðbótar ef við hefðum haft örlítið meiri tíma? Sérfræðingarnir voru ekki búnir að lesa nýjustu útgáfuna af tillögu ráðherra. Er það til fyrirmyndar? Nei, það er að sjálfsögðu ekki til fyrirmyndar. Ég er sannfærð um að málið hefði verið enn betra og batnað enn meira en það gerði ef svo hefði verið, því að það er mjög til bóta hvernig málið þróaðist í meðförum nefndarinnar. En ég er líka sannfærð um að fyrirvarar hefðu verið engir ef við hefðum fengið slíkt svigrúm.

Máli skiptir að verið er að þrengja heimild ráðherra til að veita bráðabirgðaleyfi. Verið er að draga fram að leyfisveitingarnar komi ekki til ef áður hafa verið annmarkar á leyfisveitingu til fiskeldis eða rekstrarleyfa. Ef fiskeldisfyrirtæki hafa brotið af sér eða einhverra hluta vegna ekki uppfyllt skilyrði laganna á annan hátt en að einhverjir annmarkar eru innan úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hún beinir sjónum sínum að þá er ekki hægt að veita leyfið. Það er því mikilvæg breyting að þrengja heimildina og það gerum við að fengnu leyfi sérfræðinga.

Árósasamningurinn hefur verið til umræðu þótt að stjórnarflokkarnir hafi kannski ekki sýnt því mikinn áhuga, en gott og vel. Ég vil fagna því sérstaklega að verið er að reyna að skerpa á því vegna þess að einn af sérfræðingunum sem kom fyrir nefndina, einn helsti sérfræðingur okkar á því sviði, Kristín Haraldsdóttir, sagði að ekki væri hægt að segja að breytingin gengi ótvírætt ekki gegn Árósasamningnum. Nefndin er því að reyna að hnykkja á því að þó að þetta sé bráðabirgðaleyfi er það í rauninni bráðabirgðaúrræði. Allt ferlið ber keim þess að þetta er bráðabirgðaúrræði.

Þess vegna er mikilvægt að hafa í huga að ráðherra getur sett viðbótarheimildir, eins og bent var á. Ráðherra getur sett viðbótarheimildir inn í leyfið en þó þannig að leyfisveitingin verði alltaf innan ramma gamla leyfisins, jafnvel þrengri. Það skiptir máli til að við fáum Árósasamninginn inn í samhengið sem allt saman snýst um.

Eins og ég segi þá gagnrýni ég harðlega málsmeðferðina. Ef ríkisstjórnin hefði haft einhvern dug í sér hefðum við getað fengið meiri tíma, afgreitt málið í dag, talað um það á þinginu í gær og í dag, en það var ekki gert. Það er eins gott að þegar málinu lýkur taki ríkisstjórnin ekki upp á því hjá sjálfri sér að halda áfram að viðhalda óvissu. Það var svolítil óvissa í þingsalnum í dag, m.a. af hálfu umhverfisráðherra, um hvaða leiðir yrðu farnar, þótt ég vilji líka árétta að ráðherrann mætti fyrir nefndina og svaraði þeim spurningum sem til hans var beint mjög skilmerkilega og reyndi að skýra málið. Engu að síður er ljóst að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eiga eftir að fara í ákveðið uppgjör í þeim málum sín á milli.

Annað sem ég vil halda til haga, sem fyrirvari minn og hv. þm. Smára McCarthy lýtur líka að, er að við eigum eftir að fá frumvarp, og ég hvet hæstv. sjávarútvegsráðherra til að koma sem fyrst með það, sem snertir heildarlöggjöf um fiskeldi þannig að við getum farið að ræða auðlindagjöld. Ég vil undirstrika að með því að samþykkja þá leið sem hér er er ég ekki að koma í veg fyrir að auðlindagjöld verði lögð á leyfi til fiskeldis, hvað þá bráðabirgðaleyfi. Bráðabirgðaleyfi verða ekki undanskilin töku auðlindagjalda innan fiskeldisins.

Auðvitað vil ég fara í almenna umræðu um fiskeldi. Ég vil sjá auðlindagjöldin renna í innviði og innviðauppbyggingu á þeim svæðum sem að gjaldið kemur að mestu frá. Það sama gildir um sjávarútveginn. Þetta er bara prinsippregla. Ég vil að sjávarútvegsfyrirtækin greiði gjöld eins og fiskeldisfyrirtækin, að þau fari að mestu til uppbyggingar á þeim svæðum sem þau koma frá, hvort sem er á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.

Við vitum vegna þeirrar umræðu sem er yfirvofandi um veiðigjöld í sjávarútvegi að mikilvægt er fyrir okkur að árétta að við erum ekki að girða fyrir að auðlindagjöld verði tekin af fiskeldisleyfum, hvort sem þau eru varanleg eða til bráðabirgða.

Við munum styðja málið að teknu tilliti til þeirra breytinga sem nefndin leggur fram. Ég árétta að mál á að vera mun betur unnið en þetta mál er unnið af hálfu ríkisstjórnar. Eins og við vitum er framsetningin á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og síðan vinna þeirra stjórnarflokka sem eru innan nefndarinnar.