149. löggjafarþing — 16. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[23:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir mikilvægi málsins. Það breytir því samt ekki að tíminn hefur verið knappur. Ég skil mætavel að ríkisstjórnin þurfi að bregðast svona við og ég skil mætavel að þingmenn stjórnarmeirihlutans þurfi að greiða atkvæði eins og þeir gera. Ég ber virðingu fyrir því. Það breytir því ekki að ég þarf sjálfur meira en einn dag, sér í lagi með öllum þeim spurningum sem hafa vaknað í dag, til að greiða atkvæði með frumvarpi þar sem spurningar eru enn eftir hjá mér, í mínum huga. Ég myndi enn vilja sjá umsagnirnar og tala við nefndargesti. Ég myndi enn vilja lesa nefndarálit. Vandinn er enn þá til staðar, sama hversu alvarlegur vandinn er sem við erum að reyna að leysa.

Mig langar líka að benda á að í ræðu hv. þingmanns sem talaði á undan mér kristallast einmitt að þetta snýst líka um hvað fólki finnst um fiskeldi. Það er greinilegt út frá ræðu hv. þingmanns. Það finnst mér lýsa því mjög vel hvað þetta er stórt málefni umfram þá tilteknu lagatæknilegu breytingu sem við erum að gera. (Forseti hringir.) Það rennur stoðum undir það sem ég hef verið að segja um að okkur skorti tímann.

Ég sit hjá með fullri virðingu fyrir þeim sem greiða atkvæði með frumvarpinu.