149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi fór ég hér yfir meginmarkmið þar sem umferðaröryggi er númer eitt, tvö og þrjú og forgangsröðunin miðast þar af leiðandi að því að aðskilja akstursstefnur á þessu svæði þar sem alvarlegustu slysin eru. Það nýtist öllum landsmönnum, hv. þingmaður, líka þeim sem búa fyrir austan og norðan því að þeir þurfa að fara um þau svæði. Þau eru hættulegust í öllu vegakerfinu.

Við í samgönguráðuneytinu horfum á Ísland sem eina heild og færi hv. þingmaður yfir skiptingu framkvæmdafjár til einstakra svæða, kannski 20 ár aftur í tímann, væri kannski kominn eðlilegri mælikvarði á það hvernig skiptingin er og kannski væri líka rétt fyrir hv. þingmann að taka ekki bara umferðarþunga og umferðaröryggi eða skiptingu síðustu 20 ára heldur taka lengd, kílómetra og umferðarþunga á einstökum svæðum.

Það er einfaldlega þannig, hv. þingmaður, að í þessari samgönguáætlun eru tvö risastór lykilmeginverkefni, umferðaröryggi þar sem þarf að aðskilja akstursstefnur á þessum svæðum þar sem slysaþunginn er mestur, taka þar heilsteyptar ákvarðanir, engan bútasaum, klára verkefnin, (Forseti hringir.) og hitt meginmarkmiðið er að klára grunnnetið á Vestfjörðum þar sem umtalsverðir fjármunir fara til suðurhluta Vestfjarða.