149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:13]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna mjög framsögu hæstv. ráðherra þar sem ég tel að styttist á milli okkar frá því í gær. Hann gerir að umtalsefni hið gríðarlega mikilvægi öryggismála og að þau séu stór hluti af samgönguáætluninni. Hæstv. ráðherra segir að samgönguáætlun til fimm ára sé raunhæft plagg og fullfjármagnað.

Það sem sett er á oddinn er öryggi og greiðar og öruggar samgöngur. Hæstv. ráðherra talar um kostnað vegna slysa í vegakerfinu, sem er um 50 milljarðar króna, og að stefna beri að því að fækka slysum verulega því að nú hafi hallað undan fæti. Hæstv. ráðherra vill engan bútasaum og segir að nú verði að klára verkið.

Því langar mig til þess að gera að umtalsefni fjármögnun í samgönguáætlun vegna flugs. Það er rétt að nú er verið að auka fjárframlög til flugsins, en það er hvergi nærri nóg. Þegar við ræðum um flugvelli verðum við, hæstv. ráðherra, að ræða það í alvöru. Það er ekki nægt fjármagn til þess að koma varaflugvöllum fyrir Keflavíkurflugvöll í það ástand að þeir geti sinnt þeirri flugumferð sem er til landsins og fer um hið íslenska loftstjórnarrými sem er um 25% af allri umferð sem fer yfir Norður-Atlantshafið.