149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir að það mun nást ákveðinn áfangi í dýrum framkvæmdum á næstu fimm árum. Við munum reyndar ekki hafa lokið öllu, að ég hygg, í kringum Landspítalann. Þar verður áfram þungur baggi að bera í einhvern tíma. Við eigum líka eftir að byggja mikið af hjúkrunarheimilum. Við eigum eftir að horfa til landsbyggðarinnar í framhaldi af því, uppbyggingu á heilbrigðiskerfi þar. Það er engin hætta á öðru en að þar verði næg verkefni til staðar.

Við sjáum líka að forsendur í efnahagsmálum eru þannig að það er heldur að slakna á. Það gefur okkur kannski ekki tilefni til þess að hafa miklar væntingar um að tekjur ríkissjóðs muni aukast verulega umfram það sem eðlilegt getur talist. Við höfum búið við óeðlilegar aðstæður í þeim efnum á undanförnum árum. Það er ekki til viðmiðunar.

Áætlanir búa ekki til fjármagn. Það er nú einfalda svarið. Þrátt fyrir að þessi góða aukning komi inn, þrátt fyrir að við setjum 10 milljarða í viðhald á ári vitum við að Vegagerðin telur að upphæðin þurfi að vera um 11–12 milljarðar til þess að við getum unnið á stabbanum. Eins og fram kom áðan telja Samtök iðnaðarins að uppsöfnuð viðhaldsþörf sé 60 milljarðar. Við eigum til að mynda gríðarlegt átak eftir í einbreiðum brúm, svo það sé nefnt, alveg gríðarlegt átak, sem eru víða miklir slysavaldar. Við eigum gríðarlega mikið eftir í öllum tengivegum og sveitavegum og slíku, varanlegri klæðningu á slíka vegi. Það verða því næg verkefni, virðulegur forseti, og ég tel að 30% aukning plús, jafnvel allt að 40% (Forseti hringir.) á ári sex til tíu sé fullmikil bjartsýni. Ég er ekki nákvæmlega staddur þar.