149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hitt atriðið sem ég vildi nefna voru hugmyndir ráðherrans um leiðir til að fjármagna framkvæmdir utan fjárlaga og taka verkefni sem eru á núverandi samgönguáætlun út úr henni og framkvæma með sérstökum hætti. Ég fagna slíkum hugmyndum. Það er eitt af því sem við höfum verið að ræða, að nauðsynlegt sé að við hugsum út fyrir boxið og leitum leiða. Hvalfjarðargangaverkefnið gekk vel, þ.e. það módel. Við gætum væntanlega yfirfært það á fleiri verkefni. Ég nefndi að í samgönguáætluninni væri óhjákvæmilegt að horfa til þess að t.d. Sundabraut yrði gerð með öðrum hætti, verkefni sem er upp á 50–70 milljarða. Tvöföldun Hvalfjarðarganga er sennilega á bilinu 15–20, sennilega nær 20 milljörðum. Nýr láglendisvegur um Mýrdal með göngum þar í gegn er upp á 5 milljarða. Þarna erum við komin í tæpa 100 milljarða.

Síðan eru fjölmörg (Forseti hringir.) önnur verkefni sem alveg mætti horfa til, náist um þau breið pólitísk sátt. Þess vegna fagna ég því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) sé tilbúinn að taka þá umræðu upp í þinginu og menn reyni að finna leiðir til þess. Þess vegna nefndi ég að við gætum hugsanlega tvölfaldað þá fjármuni á næstu sjö, átta árum (Forseti hringir.) til þess að geta farið hraðar í verkefni, (Forseti hringir.) og þar með náð framkvæmdastiginu kannski í 15, 16, 17 milljarða á ári í staðinn fyrir 13.