149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[16:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir orð hv. þingmanns, það er vel í látið í samgöngumál núna og það er því miður ekkert auðvelt að finna meiri peninga í þann málaflokk. Það er tvímælalaust nauðsyn og þörf á því. Þess vegna langaði mig til að spyrja hv. þingmann, svipað og ég spurði hæstv. ráðherra áðan, um þann sparnað sem við getum líka farið í í samgöngumálum. Ég nefni sem dæmi viðhald og slit á vegum þar sem viðhald vega og vegakerfisins má í raun túlka sem ákveðinn vaxtakostnað, ef maður yfirfærir þetta yfir á skuldir og lán o.s.frv. Ein aðgerð til þess að minnka þennan vaxtakostnað er að minnka álagið, t.d. með því að fjölga dekkjum á stærri bílum, minnka loftþrýsting jafnvel eða einfaldlega minnka öxulþungann; takmarkanir á einhvern hátt. Þarna er jafnvel spurning um nokkra milljarða í minna álagi og þar af leiðandi minni viðhaldsþörf og þeir milljarðar gætu farið aukalega í brýna uppbyggingu á samgönguverkefnum sem við ræðum hér.

Lítil uppbygging hefur verið í kringum höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir að ýmis loforð hafi verið gefin. Og þessar upphæðir, þegar þær teljast saman, eru alls ekkert lágar. En þessi sparnaður — sem væri tiltölulega augljós miðað við þær ábendingar sem við höfum fengið frá Vegagerðinni um meira slit stærri bíla — myndi telja mjög hratt upp í þær upphæðir á mjög stuttum tíma.