149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[18:22]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef vanist því frá minni heimabyggð að samgönguáætlunar er alltaf beðið með mikilli eftirvæntingu, líkt og jólakortanna eða jafnvel vorsins í sveitinni. Oft höfum við Vestfirðingar orðið fyrir vonbrigðum en við erum þolinmótt og bjartsýnt fólk og treystum því að við sjáum fyrir endann á vonum okkar og óskum.

Þess vegna er ég sérstaklega ánægð þegar ég kynni mér samgönguáætlun sem er lögð fyrir þingið núna. Í henni má finna stefnu í samgöngumálum og skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem skal ná til alls landsins. Hún kemur inn á heildstæða samþættingu og stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum.

Það sem skiptir mestu máli er að í framlagðri samgönguáætlun má sjá bætt vinnubrögð, en í fyrsta skipti er hún í samræmi við væntingar, væntanlegar fjárveitingar og því í samræmi við fjármálaáætlun fyrir 2019–2023. Hún er því raunhæf áætlun og enginn óraunhæfur óskalisti.

Samgönguáætlun skal stefna að því að samgöngukerfi landsins myndi eina samþætta heild sem þjónar íbúum og atvinnulífi sem best. Auka á aðgengi fólks að vörum og þjónustu og bæta hreyfanleika.

Það er ánægjulegt að sjá þær meginstoðir sem samgönguáætlun byggir á en lögð er áhersla á þær stóru stofnbrautir sem eru út úr höfuðborgin og nú skal líka klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðum. Vorið er í nánd. Í heild má segja að meginþáttur áætlunarinnar séu að tryggja öryggi vegfarenda jafnframt því að tryggja bætt samgöngukerfi.

Í Norðvesturkjördæmi skal fyrst nefna að þar verður hafist handa við 2+1 veg á Kjalarnesi. Það er verkefni sem kallað hefur verið eftir og er mjög brýnt þar sem núverandi vegur uppfyllir engan veginn öryggiskröfur eða stendur undir þeirri gríðarlegu umferðaraukningu sem orðið hefur á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir því að strax á árinu 2019 verði hafist handa við þá brýnu framkvæmd. Framkvæmdin á vegum á Kjalarnesi er óhjákvæmileg vegna aukinnar umferðar og öryggis vegfarenda. Eitt atvinnusvæði er á suðvesturhorninu og fjölgun ferðamanna hefur stóraukist.

Í framhaldi af því verður gert ráð fyrir því að vegurinn milli Hvalfjarðarganga og Borgarness verði breikkaður á öðru og þriðja tímabili og aksturstefnur verði aðgreindar með 2+1 einn vegi.

Nú kem ég að skærasta ljósinu sem er að grunnnet á Vestfjörðum verður í forgangi og er í áætluninni tryggt fjármagn í uppbyggingu á vegum á Dynjandisheiði um leið og hönnun á vegstæðinu er lokið og sú leið hefur farið í gegnum umhverfismat.

Hér er tryggt fjármagn í uppbyggingu á vegum í Gufudalssveit. Þá geta Vestfirðingar loksins sagt að þeir búi við eðlilegt samgöngukerfi að mestu.

Í samgönguáætlun má sjá að fjárveiting er áætluð til styrkingar og lagningar bundins slitlags á umferðarlitla tengivegi. Þeir eru oftast með takmarkað burðarþol, lega þeirra í hæð og plani er ekki fullnægjandi og svo mætti áfram telja. Þar sem víkja þarf frá vegahönnunarreglum, eins og í beygjum og blindhæðum, verður gripið til viðeigandi mótvægisaðgerða. Til greina kemur að lækka leyfilegan hámarkshraða ef hönnunarhraði á öllum vegum er almennt lágur eða um stuttan veg er að ræða. Með þeim aðgerðum er hægt að flýta lagningu bundins slitlags á umferðarlitlum tengivegum án þess að gengið verði á öryggi þeirra. Með fjárveitingu þeirri sem lögð er til á tímabilinu má að öllum líkindum leggja bundið slitlag á um 130 km veg.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt verulega við hvað varðar viðhald vega. Á þessu ári voru tryggðir 12 milljarðar til viðhalds sem nýtast til brýnna úrbóta og í leiðinni til að tryggja umferðaröryggi sem best. Í samgönguáætlun er áhersla lögð á öryggi. Liður í því er að gera átak við lagningu á bundnu slitlagi þar sem vantar og fækka einbreiðum brúm. Miklu skiptir að lögð sé áhersla á viðhald vega jafnhliða nýframkvæmdum. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir verulegri aukningu á framlögum til viðhalds vega, enda uppsöfnuð þörf mikil. Það skiptir gríðarlega máli þegar kemur að öryggi vegfarenda.

Vegagerð ríkisins fær það verkefni að forgangsraða verkefnum og horfa til ástands vegar, hættu sem af honum stafar og umferðarþunga. Nokkuð hefur verið talað um gjaldtöku vega vegna samgöngumannvirkja þegar horft er í einkaframkvæmdir. Til að hraða samgönguframkvæmdum er unnið að útfærslu gjaldtökuleiða sem nýtist á ákveðnum mannvirkjum. Slík gjaldtaka á einstaka mannvirkjum býr til svigrúm í samgönguáætlun og hægt að ráðast í þau fyrr en gert er ráð fyrir í áætluninni sjálfri.

Nú um mánaðamótin var gjaldtöku hætt við Hvalfjarðargöng, en hún er dæmi um góða samvinnuleið í úrbótum á samgöngumálum. Í því sambandi gætum við nefnt jarðgöng og stórar framkvæmir í kringum höfuðborgina, eins og Sundabraut og tvöföldun Reykjanesbrautar.

Virðulegi forseti. Það er ekki nóg að byggja upp breiða vegi með flottu slitlagi ef vetrarþjónustu er ekki sinnt. Á Íslandi er hálkuvörnum og snjómokstri sinnt meiri hluta ársins. Þörf er fyrir aukna þjónustu, sérstaklega vegna aukinnar umferðar, m.a. vegna ferðamanna. Þar að auki þýðir breikkun á nokkrum fjölförnustu vegum í kringum höfuðborgarsvæðið aukið umfang vetrarþjónustu. Í áætluninni sem liggur fyrir má sjá aukna fjármuni veitta í vetrarþjónustu sem slær björtum tóni í öryggismarkmið samgönguáætlunarinnar.

Samgönguáætlun snýr ekki aðeins að akvegum landsins. Við erum að tala um flugið, fjarskipti og hafnir. Við viljum sjá innanlandsflugið eflt þrátt fyrir að farþegafjöldi í innanlandsflugi hafi ekki breyst mikið á síðustu árum, en það skýrist af auknum vegabótum og betri vetrarþjónustu. En það er ekki þar með sagt að mikilvægi innanlandsflugs sé að minnka. Skoða á af alvöru hugmynd sem kennd hefur verið við skosku leiðina en hún miðar að því að leita leiða til niðurgreiðslu flugfargjalda fyrir íbúa á fjarsvæðum, líkt og gert hefur verið í Skotlandi og víðar.

Þarna er verið að styrkja stórmál sem snertir styrkingu við búsetu um allt land. Góðar flugsamgöngur opna aðgang íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu, sérhæfðri þjónustu og afþreyingu sem einungis er í boði á höfuðborgarsvæðinu, og má náttúrlega snúa því við líka því að það er jafn langt báða vegu. Það skiptir líka máli að viðhalda flugvöllum um allt land þegar horft er til sjúkraflugs.

Samgöngur og fjarskipti gera landsmönnum kleift að nálgast opinbera grunnþjónustu á sem stystum tíma og er ánægjulegt að sjá að samhliða vinnslu áætlunarinnar er unnið að gerð stefnu og aðgerðaáætlunar í fjarskiptum til 5 og 15 ára. Þar er m.a. fjallað um uppbyggingu fjarnets um allt land. Mikilvægi fjarskipta fyrir vegfarendur eykst stöðugt, sérstaklega þegar við hugsum um öryggi vegfarenda. Notkun leiðbeinandi tækja í snjalltækjum nútímans eykst og munum við í nánustu framtíð líklega sjá sjálfkeyrandi bíla sem verða að öllum líkindum komnir á vegi landsins áður en þessi samgönguáætlun rennur úr.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið við gerð samgönguáætlunar er að samgöngur séu hagkvæmar. Aukið öryggi vegfarenda, stytting vegakafla, greiðari meginleiðir, minni töf vegfarenda og fjölgun jarðganga eru allt liðir í að gera samgöngukerfi landsins hagkvæmara til lengri tíma.

Ég fagna metnaðarfullri samgönguáætlun og vona hægt verði að hrinda henni í framkvæmd sem fyrst.