149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[19:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þakka fyrir að hleypa mér að. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég veit og geri mér fulla grein fyrir því að ræðan hefði verið miklu lengri og miklu betri ef hún hefði haft meiri tíma, en þannig er það nú bara, við þurfum stundum að takmarka okkur.

Þingmaðurinn og ég höfum oft verið sammála í sambandi við samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og með hvaða hætti hægt væri að bæta umferðaflæði o.s.frv., ekki endilega eingöngu í þeim tilgangi að koma öllum í almenningsfarartæki eða aðra ferðamáta, heldur líka að með því búa til tækifæri til að liðka til fyrir í umferðinni fyrir þá sem verða að keyra um á einkabílum einhverra hluta vegna.

Það sem mig langaði hins vegar að fá þingmanninn til að ræða aðeins við mig í fyrra andsvari snýst um aðra vangaveltu, þ.e. hvort þingmaðurinn sjái fyrir sér að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ættu, annaðhvort með samræmdum aðgerðum eða hvert og eitt, að skoða þann möguleika í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að liðka til fyrir framkvæmdum til að mynda með því að fjármagna sjálf hluta af framkvæmdum út á það að ríkið, þá á seinni stigum, komi með það fjármagn sem þarf þegar t.d. um er að ræða brýnar framkvæmdir eins og stokkinn góða í Garðabæ eða Arnarnesveg í Kópavogi, sem ég veit að hv. þingmaður, sem er í sama kjördæmi og ég, hefur miklar áhyggjur af að skuli vera á seinni stigum framkvæmdaáætlunarinnar.