149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og réttindi fatlaðs fólks.

[10:38]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum var sagt að auka aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu. 650 millj. kr. heildaraukning í málaflokkinn er einfaldlega ekki nóg til að stórbæta aðgengi, fjölga sálfræðingum á heilsugæslum, menntastofnunum og í fangelsum, eins og kallað hefur verið eftir, eða niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Mál sem eru eins alvarleg og geðheilbrigði ungs fólks mega ekki verða flokkspólitísk. Samfylkingin, og örugglega allir hinir flokkarnir hér inni, mun koma af fullum þunga að því að mæta þeirri þörf sem er raunverulega til staðar í samfélaginu. Við skulum a.m.k. sýna, eins og við gerðum fyrir tveimur, þremur dögum þegar við rusluðum í gegnum þingið umdeildu lagafrumvarpi, að við getum mætt einhverju alvarlegasta vandamáli sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Það mun ekki standa á okkur, hæstv. ráðherra. Ráðherra má alveg leggja til meiri peninga og við munum samþykkja þá. (IngS: Og við líka.)