149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[16:12]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram og fyrir framsögu hans um málið. Mig langar að byrja á því að spyrja hann hvort það sé ekki rétt skilið að þessi flutningsjöfnun geti aldrei átt við um aðföng til framleiðslu og hvort hann þekki þá til þess að einhverjar aðrar leiðir séu til þess að jafna aðstöðumun við framleiðslu.

Það sem kannski er aðalástæða þess að ég kem hér upp eru vangaveltur um hvort hugsanlegt sé að afurðir skógarbænda gætu líka fallið undir þá útvíkkun sem nú á sér stað, þar er að mörgu leyti sambærileg framleiðsla. Nú er staðan þannig að kannski er fullvinnsla skógarafurða að hefjast á Íslandi og einmitt fjarri aðalmarkaðssvæðinu. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki rétt ábending til nefndarinnar að þetta verði skoðað í vinnslu frumvarpsins.

Ég velti því síðan fyrir mér hvort hugsanlegt væri að fullvinnsla annarra matvæla en grænmetis á býlum gæti fallið þarna undir.