149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Í gær las ég frétt um að þrír fræðimenn hefðu fengið ritrýndar og birtar fræðigreinar sem voru frá upphafi til enda algjör þvæla. Ein þeirra fékk meira að segja verðlaun. Þrátt fyrir að mér finnist þetta mjög fyndið er það grafalvarlegt. Þetta er alvarlegt vegna þess að það er svo lýsandi fyrir stöðuna sem við búum við. Magnið af misgóðum upplýsingum er nánast óþrjótandi og allt of lítið um að þær séu sannreyndar, enda fer traustið þverrandi. Falsfréttir eru staðreynd og vantraust gagnvart upplýsingum er mikið. Algrím býr til bergmálshella. Hlustun á milli hópa minnkar.

Við í þessum sal getum gert okkar til að spyrna við þeirri þróun með því að fara sjálf vel með staðreyndir. Héðan af þinginu er haldið á lofti miklu af staðhæfingum sem rata í fjölmiðla og gárast þaðan út í samfélagið sem staðreyndir. Fólk á að geta treyst þeim þótt það hafi auðvitað á þeim mismunandi skoðanir.

Forseti. Tilgangurinn hér og nú er ekki að nefna dæmi eða benda á einhverja sérstaklega, enda kæmi okkur eflaust seint saman um hvað væri hvað í því. Tilgangurinn er einfaldlega að fá að nefna að við erum almennt nógu ósammála til að rökræða mjög mikið og mjög hátt. Við getum alveg unnið vinnuna okkar og skipst á skoðunum án þess að bjaga staðreyndir. Hversu mikið sem það kann að helga meðalið, hversu mikið sem við trúum á málstaðinn mun það smátt og smátt sverfa enn frekar að trúverðugleika nauðsynlegs samtals í samfélaginu.