149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:35]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé ágætisfrumvarp og sköruglega kynnt hér af hæstv. forsætisráðherra. Ég vil þó leyfa mér að skora á hæstv. forsætisráðherra að hætta við þessa hallærislegu, leyfi ég mér að segja, eða a.m.k. yfirborðslegu breytingu á embættisheiti félagsmálaráðherra. Í greinargerð finnst sá rökstuðningur að nafnbreytingin, úr félagsmálaráðherra í félags- og barnamálaráðherra, eigi að endurspegla aukna áherslu á þennan málaflokk. Ég held að það sé einhver meinloka í þessu. Í embættisheitinu á ekki að felast áhersla eða áhersluleysi viðkomandi ráðherra á tiltekna málaflokka.

Á þá næsti félagsmálaráðherra að heita félags- og fötlunarmálaráðherra af því að hann ætlar að leggja áherslu á málefni fatlaðs fólks? Embættisheitið á ekki að endurspegla forgangsröðun ráðherra varðandi einstaka efnisflokka. Ætti efnahags- og fjármálaráðherra, af því að hann ætlar að leggja svo mikla áherslu á eitthvert tiltekið svið, að taka upp heitið efnahags-, fjármála- og persónuafsláttarráðherra? Eða ætti heilbrigðisráðherra að vera heilbrigðis- og liðskiptaráðherra, ef hann ætlaði að leggja áherslu á það í embættisverkum sínum?

Ég held að hér sé einhver meinloka á ferðinni. Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að taka ekki þátt í svona tilgerðarlegu athæfi, vildi ég sagt hafa. Fyrir nú utan hvað þetta skapar slæmt fordæmi. Hæstv. forsætisráðherra er þekkt smekkmanneskja á íslenska tungu; ég skora á hana að gera þetta ekki, að hætta við þetta.