149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

umboðsmaður barna.

156. mál
[16:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa mikilvægu athugasemd. Breytingin sem verður með þessu frumvarpi, verði það að lögum, er að umboðsmaður barna fær lögfest hlutverk sem er að bæta hag barna, eins og það er orðað í tillögugreininni, og standa vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra, m.a. samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og fleiri alþjóðasamningum, svo sem nánar greinir í lögum þessum.

Síðan koma fleiri greinar, m.a. 3. gr. þar sem f-liður hljóðar svo:

„Við 2. mgr. bætast þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:

g. afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt ákvæði, tel ég, þó að ég hafi kannski mest rætt um barnaþingið því að það stendur mínu hjarta nærri. En þetta er gríðarlega mikilvægt ákvæði því að þá erum við í raun að fela embættinu þessa miðlægu sýn á gögnin sem þurfa að vera til staðar þannig að ólík ráðuneyti geti byggt stefnu sína á gögnum.

Síðan heldur þessi liður áfram:

„Þau gögn skulu lögð til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.“

Sú miðlæga sýn sem þarna á að verða til á að tryggja að barnasáttmálinn sé undirliggjandi þegar við mótum stefnu í menntamálum, heilbrigðismálum, félagsmálum o.s.frv.

Sömuleiðis er þarna kveðið á um að umboðsmaður barna eigi að stuðla að því að börn fái kynningu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og þeim réttindum sem í honum felast. Það er auðvitað unnið að þessu víða, t.d. í skólakerfinu og af hálfu UNICEF, og þarna kemur þetta lögfesta hlutverk til umboðsmanns, að hann eigi að tryggja að öll börn séu upplýst um þessi réttindi.