149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir stuðninginn við frumvarpið. Fáir hér inni þekkja betur til mála en hv. þingmaður og mér þykir mjög vænt um innlegg hans og stuðning.

Ég vil nefna tvennt sem hann kom inn á, annars vegar varðandi samræður við rithöfunda. Samræður sem áttu sér stað við bókaútgefendur voru fyrst og síðast tæknilegs eðlis í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni, það er alltaf betra að kalla fleiri að borðinu og við héldum kynningarfund í mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir rithöfunda þar sem þeir gátu komið með athugasemdir og spurningar og svo að sjálfsögðu geta þeir komið inn í ferlið þegar málið er tekið fyrir í allsherjar- og menntamálanefnd. En ég tek undir með hv. þingmanni, þetta skiptir allt máli.

Varðandi nefndina er alveg ljóst að hún verður faglega skipuð. Það er nákvæmlega sama fyrirkomulag og er með nefndina er metur endurgreiðslur fyrir kvikmyndaframleiðendur. Ég vil bara nefna það í þessum þingsal að ekkert annað hvarflar að ráðherranum sem hér stendur. Þetta er nákvæmlega sama fyrirkomulag og það hefur reynst vel. Að sjálfsögðu munum við gæta ýtrustu fagmennsku hvað það varðar.