149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[17:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir stuðning hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar og nálgun hans á málið. Eins og hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson þekkir hann mjög vel til bókaútgáfu, bæði sem rithöfundur og útgefandi. Auðvitað skiptir okkur miklu máli í í þessum sal hvernig þeir þingmenn nálgast málið og meta það. Ég vil þakka kærlega fyrir það.

Ég vil líka nefna að ein af ástæðum þess að við förum fram á þetta er að við erum að senda skýr skilaboð út í samfélagið og segja: Bókaútgáfa, menning okkar, skiptir okkur sem erum á þingi verulegu máli. Við erum að senda skýr skilaboð um þá þróun sem hefur átt sér stað, að við viljum hana ekki. Við viljum hafa samfélag þar sem er útgáfa, fjölbreytt útgáfa bóka, hvort sem það er á prenti, rafrænt eða hljóðbækur. Við teljum það gott fyrir samfélagið. Við erum þannig þjóð og höfum verið í árhundruð. Þetta er menning okkar. Við komum þaðan. Við erum sú þjóð sem hefur haldið utan um að rita sögu Norðurlanda. Framlag okkar til heimsbókmenntanna er gríðarlegt. Við eigum að vera stolt af því.

Mér finnst því útilokað annað en að við tökum þau skref, ekki bara er varðar bókaútgáfu heldur líka fjölmiðla, máltækni og aðrar aðgerðir sem miða að því að styðja við íslenskt mál.