149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem um ræðir er að við sjáum stórkostlegan samdrátt í bóksölu og veltu. Við erum að tala um 40% á síðustu tíu árum.

Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að við munum ekki standa undir nafni sem bókaþjóð, hvort sem efni er prentað, á rafrænu formi eða hljóðbók, nema við komum að því á þann hátt sem við erum að gera. Vísbendingarnar eru þannig að ekki er hægt að líta fram hjá þróuninni.

Við sjáum til að mynda í mjög merkilegri rannsókn sem Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir framkvæmdu og var kynnt 4. október hjá Kennarasambandi Íslands, um máltöku og málþroska íslenskra barna, að veruleg breyting hefur orðið á málvitund og málþroska barna sem eru alin upp við snjalltæki. Þau meta málið öðruvísi.

Ég tel að það séu vísbendingar um að ef við viljum halda í við málið okkar þurfum við að grípa til aðgerða, sem við erum svo sannarlega að gera. Þar með er ég ekki að segja að við þurfum að óttast enskuna eða hafa of miklar áhyggjur, ég er nefnilega sammála hv. þingmanni um að við ritum heilmikið á íslensku og börnin okkar gera það með tækninni. Hins vegar held ég að það komi samt ekki alveg í staðinn fyrir vandaða bók. Ef sala bóka heldur áfram að dvína missum við ákveðna hefð og menningu frá okkur. Ég tel að við séum að ýta og styðja við þá menningu sem við metum og hefur skilað þeim árangri sem við höfum náð sem þjóð.