149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að ég og hæstv. menntamálaráðherra séum svo ósammála um þá breytingu sem er að verða eða um gríðarlegt mikilvægi lesskilnings, eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á.

En hvernig tökumst við á við það í þeim miklu umbreytingum sem eru að verða? Hvernig nálgumst við efni? Hvernig munum við nálgast efni t.d. með þróun tækni eins og máltækni? Við munum væntanlega hlusta miklu meira á efni heldur en lesa það þegar fram í sækir, þ.e. símarnir okkar, tölvurnar okkar munu lesa fyrir okkur. Hvernig tökumst við á við þá umbreytingu og verndum agnarsmátt tungumál um leið?

Ég legg áherslu á það í máli mínu að hin prentaða bók er einn farvegur ritaðs máls en alls ekki sá eini og tækniþróunin bendir til þess að hið ritaða mál sé að fara í allt annan farveg. Þess vegna held ég og trúi því bjargfast að við munum einfaldlega þurfa að sætta okkur við þá breytingu og horfa frekar til þess hvernig við tryggjum tilvist íslenskunnar og vandaðs ritaðs máls á íslensku í þeim alþjóðaheimi sem við búum í, að það sé ekki endilega í hinni prentuðu bók.

Ég held að skynsamlegra væri, og til þess að tryggja að raunverulega væri verið að styrkja slíka útgáfu, að beina styrknum beint til höfundanna sjálfra frekar en til útgefendanna. Það er kjarni máls hjá mér. Við höfum áður séð viðlíka þróun. Ef við skoðum rætur málsins þá liggja þær hjá þeim sem færir hið ritaða mál á eitthvert form, hvert sem formið er.