149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

178. mál
[19:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en fannst að það yrðu einhverjir aðrir þingmenn Norðausturkjördæmis að taka til máls um þetta mikilvæga mál sem ber þetta fyndna heiti, „Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr (íslenskukunnátta)“.

Ég ætlaði bara að segja að ég er mjög hlynnt frumvarpinu. Mér þykir engu að síður leiðinlegt að það hafi þurft að benda okkur sérstaklega á þetta í áliti umboðsmanns Alþingis. Það er mikilvægt að við höfum þetta í huga í fleiri málum.

Mig langaði að nota tækifærið og benda sérstaklega á að í okkar fjölmenningarlega samfélagi, sem við viljum vera, hefur líka verið bent á að víða í stjórnsýslunni er ekki bara gerð krafa um kunnáttu í íslensku, sem oft og tíðum er mjög æskilegt, heldur er jafnframt í atvinnuauglýsingum gerð krafa um að kunna annað Norðurlandamál. Þegar fólk kemur hingað frá öðrum menningarsvæðum með annað móðurmál og hefur lagt sig fram um að læra íslensku er ansi mikið á það lagt að kunna líka að tala dönsku, norsku eða sænsku. Ég vildi bara árétta þetta hér og beina því til hæstv. ráðherra og okkar hér í þessum sal að við höfum það í huga að við erum að þróast í það að vera fjölmenningarlegt samfélag. Að sjálfsögðu eigum við að taka vel á móti því fólki sem vill koma hingað og starfa og ekki gera kröfur sem eru ekki endilega þarfar í öllum tilfellum.