149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[19:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 182, máli nr. 179. Þar er um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Frumvarpið felur í sér að gjald fyrir hvert útflutt hross hækkar úr 1.500 kr. í 3.500 kr. Þá er innheimtu gjaldsins breytt á þann veg að í stað þess að Bændasamtökin annist innheimtuna sér innheimtumaður ríkissjóðs um hana. Tilefni þessarar breytingar er erindi frá Bændasamtökum Íslands til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem þess var farið á leit að umrætt gjald yrði hækkað. Beiðni um hækkun gjaldsins barst ráðuneytinu fyrst í nóvember árið 2015 í kjölfar þess að Félag hrossabænda og fagráð í hrossarækt höfðu ályktað um það. Bændasamtök Íslands benda á að auknar tekjur muni efla sjóðinn til að takast á við þau verkefni sem honum er ætlað að styðja. Gjaldið mun renna í ríkissjóð sem veitir stofnverndarsjóði íslenska hestakynsins framlag á fjárlögum í samræmi við tekjur af gjaldinu. Um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins gilda ákvæði reglugerðar nr. 1123/2015 og samkvæmt henni annast fagráð í hrossarækt stjórn sjóðsins og hann er í vörslu Bændasamtaka Íslands sem annast reikningshald hans og ávöxtun í samráði við fagráðið. Sjóðurinn veitir styrki til þróunar- og rannsóknarverkefna sem eiga að stuðla að viðhaldi verðmætra eiginleika í íslenska hrossastofninum, verndun erfðafjölbreytileika stofnsins og auka þekkingu á stofninum og útbreiðslu hans. Fagráð í hrossarækt auglýsir eftir umsóknum ár hvert og tekur ákvörðun um styrkveitingu og stjórn Bændasamtaka Íslands staðfestir úthlutun styrkja eftir tillögum fagráðsins.

Tekjur stofnverndarsjóðsins vegna útflutnings hrossa árið 2017 námu samtals 2.229.000 kr. Ef gjaldið yrði hækkað í 3.500 kr. af hverju útfluttu hrossi miðað við útflutning 2017, alls 1.486 hross, myndu tekjur sjóðsins hækka og verða rúmlega 5 millj. kr. á ári, eins og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé gerir sér fullkomlega grein fyrir. Rétt þykir að tekjur og útgjöld vegna sjóðsins verði að nýju tilgreind í fjárlögum og að ríkissjóður annist innheimtu gjaldsins og er því lagt til að ákvæði 2. málsliðar 6. gr. laganna, þess efnis að Bændasamtök Íslands annist innheimtu gjaldsins, verði breytt.

Frumvarpið var sett í opið samráð í samráðsgátt Stjórnarráðsins 24. ágúst til 2. september 2018 og barst ein umsögn, frá Bændasamtökum Íslands sem kváðust styðja umrætt frumvarp. Auk þess var óskað umsagnar frá tollstjóra sem gerði ekki athugasemdir við það að innheimta gjaldsins yrði færð til innheimtumanns ríkissjóðs.

Í 6. gr. laga um útflutning hrossa er mælt fyrir um gjaldtöku af hverju útfluttu hrossi. Af framangreindu leiðir að gjaldinu verður ekki breytt nema með setningu laga.

Afleiðingar af samþykkt frumvarpsins hljóta að teljast óverulegar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem stunda útflutning á hrossum en Bændasamtök Íslands benda á að auknar tekjur muni efla sjóðinn til að takast á við þau verkefni sem honum er ætlað að styðja, þ.e. að veita styrki til þróunar- og rannsóknarverkefna í hrossarækt.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til greinargerðar sem fylgir því. Að lokinni umræðu hér legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.