149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Þá held ég sé best að taka upp þráðinn frá því á þriðjudag þegar við ræddum um kórónu sköpunarverksins, íslensku sauðkindina, og það sem að henni snýr.

Starfsumhverfi afurðastöðva er nokkuð sem þarf að endurskoða. Við búum okkar afurðastöðvum í kjötiðnaði ákveðið starfsumhverfi sem við römmum síðan inn í samkeppnislög. En tímarnir hafa breyst og mennirnir með. Stór hluti þeirra matvæla sem við flytjum inn til landsins er án tolla. Sú tollvernd sem íslenskir matvælaframleiðendur hafa búið við er því afskaplega takmörkuð.

Innflutt matvæli eru framleidd við allt önnur skilyrði en eru hér á landi og má þar nefna stærð þeirra matvælafyrirtækja sem sjá um úrvinnslu og framleiðslu vörunnar. Það blasir við að matvælaframleiðslu á Íslandi má flokka sem alþjóðaviðskipti. Við erum að starfa innan EES, markaðar sem telur um 550 milljónir manna. Hér á landi gilda samkeppnislög sem vert er að endurskoða. Það sér hver maður að þau fyrirtæki sem hér starfa í matvælaiðnaði eru örfyrirtæki í alþjóðlegu samhengi. Afurðastöðvar á Íslandi eru margar og litlar. Það gefur augaleið að hagræðingarmöguleikarnir eru miklir.

Tímarnir breytast og mennirnir með. Það á líka við um öll mannanna verk. Það á líka við um samkeppnislög á Íslandi. Við verðum að laga þau að breyttri heimsmynd í alþjóðaviðskiptum með matvæli, (Forseti hringir.) neytendum og bændum til heilla.