149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um störf hv. fjárlaganefndar, framvindu starfa þar og skipulagið fram undan. Í nefndinni höfum við unnið með skipulag þar sem áherslan er á umfjöllun fjárlagafrumvarps og það sem snýr að framkvæmd fjárlaga og eftirliti með framgangi fjárlaga fyrir árið 2018. Við áttum til að mynda fund með Ríkisendurskoðun í dag varðandi sex mánaða uppgjörið.

Um tímarammann í vinnu við fjárlagafrumvarpið og samhengi við starfsáætlun Alþingis mun nefndin klára gestakomur og samtalið við umsagnaraðila fimmtudaginn 1. nóvember, á nefndadegi. Nú hafa 27 umsagnir borist og þær birtar undir málinu og búið er að tímasetja fundi um það allt.

Ég get því sagt hér, og upplýst um leið virðulegan forseta, að tímaplanið gengur vel upp og að því leytinu getur starfsáætlun þingsins staðist þar sem gert er ráð fyrir að 2. umr. um fjárlög hefjist þriðjudaginn 13. nóvember.

Í framhaldinu mun nefndin leggja aukna áherslu á eftirlitsþáttinn og framkvæmd fjárlaga og leggja til grundvallar í þeirri vinnu frávikagreiningu málefnasviða og málaflokka og kalla eftir viðbrögðum og aðgerðum í hverju ráðuneyti út frá þeirri greiningu. Eins munum við taka upp þráðinn með Ríkisendurskoðun og fara yfir skýrslu þeirra um níu mánaða uppgjörið.

Auk umsagna berast nefndinni fjölmargar fjárbeiðnir. Nefndin hefur sameinast um það verklag að skrá allar beiðnir í fjárlagakerfið og svara um hæl, m.a. með skilaboðum; erindið er áframsent á viðeigandi ráðherra sem ber stefnumótandi ábyrgð á því málefnasviði sem erindið heyrir undir. Það útilokar ekki umfjöllun nefndarinnar og þingsins en er til þess gert að vinna í samræmi við lögin um opinber fjármál, auka gagnsæi og gæta jafnræðis gagnvart öllum aðilum.