149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[15:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu um erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu. Það er rétt, sem fram kemur hjá hv. þingmanni, að þetta hefur ekki verið mikið rætt og ég fagna tækifærinu til að ræða þetta þótt stuttlega sé.

Almennt séð er erlend fjárfesting í atvinnulífi æskileg. Þannig kappkostum við Íslendingar, eins og flest lönd sem við berum okkur saman við, að laða til okkar slíka fjárfestingu. Kostirnir eru ekki aðeins fjármagnið sem þannig kemur inn í hagkerfið heldur líka þekkingin, hugvitið, viðskiptatengslin, reynslan og framfarirnar sem gjarnan streyma inn í atvinnulífið með auknu samstarfi og samvinnu við alþjóðleg fyrirtæki og fjárfesta.

Þess vegna hefur það löngum verið stefna okkar að auka veg erlendrar fjárfestingar. Í þingsályktun frá árinu 2012 segir að bætt samkeppnishæfni Íslands gagnvart erlendri fjárfestingu, og markaðssetning í þeim tilgangi, sé viðfangsefni sem beri að leggja aukna áherslu á. Árið 2016 var svo samþykkt þingsályktunartillaga um nýfjárfestingar þar sem skilgreindar eru sex áherslur varðandi þær. Í samræmi við þessa stefnu aðstoðar fjárfestingarsvið Íslandsstofu erlenda aðila sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Ferðaþjónustan er þar ekki undanskilin, enda geta ferðaþjónustutengd verkefni fallið vel að áherslum í þingsályktuninni, ekki síst þeirri áherslu að byggja skuli á styrkleikum Íslands og sérstöðu.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að búast megi við því að erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu fari vaxandi á næstu árum. Ég tel miklar líkur á að svo verði. Áhugi fjárfesta á ferðaþjónustu hefur aukist verulega og líklegt er að sá áhugi muni áfram og jafnvel í auknum mæli ná til erlendra aðila. Þó að umfang erlendrar fjárfestingar í ferðaþjónustu liggi ekki skýrt fyrir er ljóst að hún hefur verið í nokkrum hótelum og annarri gistingu, líkt og hv. þingmaður kom inn á, og vitað er að íslenskir frumkvöðlar eru að leita hófanna um samstarf við erlenda fjárfesta varðandi margvísleg verkefni víða um land.

Spurt er hvort ég telji að setja þurfi erlendum aðilum skorður, annars vegar varðandi fjárfestingar í ferðaþjónustu og hins vegar varðandi kaup á landi og landgæðum.

Varðandi hið fyrra má benda á að íslensk flugfélög mega ekki vera í meirihlutaeigu aðila utan EES-svæðisins, sem sumum hefur raunar þótt orka tvímælis, en að því atriði slepptu tel ég ekki sérstaka þörf fyrir að setja upp sérstakar hindranir varðandi eignarhald á fyrirtækjum í ferðaþjónustu að sinni. Við erum hér að hluta til að tala um takmarkaðar auðlindir og auðlindir í almannaeigu. Við sem hér sitjum og Íslendingar almennt vitum öll að við eigum hér ótrúlega mikil verðmæti, náttúruna, og þess vegna finnst mér ólíku saman að jafna, hvort um er að ræða fjárfestingar í fasteignum eða þegar menn eru komnir inn á nýtingu á takmörkuðum auðlindum.

Í þessu samhengi segi ég að við munum þurfa að huga að því að hvaða marki sé rétt að fyrirtæki sem stunda atvinnustarfsemi á landi í almannaeigu greiði fyrir þann afnotarétt, sérstaklega ef í því felst að þau hafi fengið úthlutað takmörkuðum gæðum sem ekki standa öllum til boða. Ef rétt verður búið um hnútana hvað þetta varðar skiptir ekki höfuðmáli, a.m.k. ekki í mínum huga enn sem komið er, hvort eignarhald fyrirtækjanna er innlent eða erlent því að almenningi, eiganda landsins, hefur þá verið tryggt ákveðið endurgjald. Auðlindin er auðvitað alltaf í eigu okkar þrátt fyrir að nýtingin sé mögulega hjá einhverjum erlendum aðilum. Fyrirkomulag á úthlutun leyfa til að stunda atvinnustarfsemi á landi í eigu ríkisins er í skoðun hjá þeim ráðuneytum sem málið varðar. Þetta væri hins vegar fyrst og síðast stýringartæki en ekki endilega tekjuöflun.

Reglur um kaup á landi og landgæðum eru síðan alveg sérstakt viðfangsefni og ekki bundið við ferðaþjónustu en vöxtur hennar hefur auðvitað haft áhrif á þennan þátt. Stjórnarsáttmálinn kveður á um athugun á þessum reglum og ég ætla þess vegna ekki að gefa mér niðurstöðu úr þeirri athugun. Þetta hefur verið í skoðun um langa hríð.

Kaup erlendra aðila á landi geta eðlilega vakið spurningar, t.d. varðandi takmörkun á umgengni eða aðgengi almennings og hvort nýting landsins styður við byggðamarkmið og önnur slík sjónarmið. Ef við teljum að framferði landeiganda sé ekki í samræmi við almannahagsmuni finnst mér ekki augljóst að það skipti máli hvers lenskur viðkomandi er. Ég tel mikilvægast að vernda almannahagsmuni í þessum efnum með almennum hætti óháð þjóðerni. Ég ítreka þó að þegar um þetta er rætt kann vel að vera að endurskoðunin, sem stjórnarsáttmálinn kveður á um, leiði til þess að skilyrði verði þrengd frá því sem nú er, sem mun þá væntanlega hafa möguleg áhrif á ferðaþjónustuna þrátt fyrir að slík úttekt sé ekkert bundin við hana.