149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[16:57]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umbeðna skýrslu um þolmörk ferðamennsku og hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Umrædd skýrsla er yfirgripsmikil og vel unnin. Á dr. Gunnþóra Ólafsdóttir og starfsfólk í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu þakkir skildar fyrir vinnuna. Í skýrslunni er sett fram heildstæð úttekt á niðurstöðum rannsókna á sviði þolmarka í ferðaþjónustu og lögð fram tillaga um mótun verkferils sem getur gert stjórnun áfangastaða skilvirkari og stuðlað að sjálfbærri þróun í greininni.

Skýrslan sýnir að staða mála er mjög mismunandi eftir landshlutum og mikilvægt að bregðast við sem allra fyrst og móta leiðir til úrbóta. Ég er talsmaður sjálfbærrar þróunar og ferðamennska af öllu tagi þarf að taka mið af þeim markmiðum. Það er mín skoðun að ferðaþjónustan sem nú er orðinn okkar stærsti atvinnuvegur verði að ná ákveðnu jafnvægi. Ferðamannafjöldinn hefur vaxið með ógnarhraða á undanförnum árum eins og þjóðin hefur ekki farið varhluta af, en nýverið hefur aðeins dregið úr fjölgun. Ég tel það svo sem ekkert slæma þróun til lengri tíma litið.

Í ferðamálaáætlun voru sett fram meginmarkmið um að auka arðsemi atvinnugreinarinnar, standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, lengja ferðamannatímabilið, þar með minnka árstíðasveiflur. Þar er sérstaklega tekið fram að stuðla eigi að betri dreifingu ferðamanna um landið. Einnig kom fram að auka þyrfti gæði og umhverfisvitund og skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar.

Óhætt er að segja að vel hafi gengið að lengja ferðamannatímabilið sem jafnar út álag á fjölfarna ferðamannastaði hér á landi, en þó er ljóst að fjöldinn gerir það að verkum að sérstaklega þarf að huga að þolmörkum. Fagna ég því sérstaklega skýrslunni að því leytinu til. Skilgreina má þolmörk ferðamennsku sem þann fjölda gesta sem svæðið getur tekið á móti áður en neikvæðra áhrifa fer að gæta, hvort heldur sem er á náttúrulegt umhverfi eða upplifun ferðamanna eða viðhorf heimamanna.

Virðulegi forseti. Ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til þess að upplifa ósnortna náttúru. Ef ágangur, aðgengi og uppbygging helst ekki í hendur missum við frá okkur sérstöðuna og ferðamenn hætta að sækja okkur heim.

Kostnaðurinn af komu ferðamanna leggst líka mjög misjafnlega á byggðir landsins og er oft úr takti við þann fjölda sem sækja ferðamannastaði. Því getur verið erfitt fyrir minni samfélög og svæði að takast á við mikinn ferðamannafjölda, sér í lagi þegar gjaldtaka helst ekki í hendur við þann fjölda. Ég vil því benda á mikilvægi þess að ríkisstjórnin skoði skiptingu tekna af gistináttagjaldi sem dæmi, auk þess sem hófleg gjaldtaka af ferðamannastöðum er óumflýjanleg til þess að tryggja það að ekki sé gengið of nærri náttúru og innviðum.

Ég vil fagna sérstaklega vinnu af hálfu Stjórnstöðvar ferðamála er snýr að álagsmati gagnvart fjölda ferðamanna því það er mikilvægt að náttúran og samfélagið fái að njóta vafans. Sú vinna, skilst mér, verður síðan nýtt við mótun á nýrri ferðamálastefnu sem ráðgert er að komi 2020.

Til þess að ferðamennskan okkar geti vaxið og dafnað í sátt við samfélag og náttúru landsins þurfa allir hagsmunaaðilar, ríki og sveitarfélög, að ganga í takt. Ég er ansi hræddur um að í mörgum tilfellum sé það alls ekki þannig. Við þurfum því að samhæfa aðgerðir og áherslur og tryggja tekjustofna og vanda til verka.

Einnig vil ég minnast á það hér að auka þarf verulega áherslu á rannsóknir á sviði ferðamála svo hægt sé að byggja ákvarðanatöku á bestu fáanlegum upplýsingum. Við þurfum að tryggja fjárveitingar til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og ekki síst Háskólans á Hólum.

Virðulegi forseti. Markmiðið á að vera að ferðamennska blómstri hér á landi í sátt við umhverfi og samfélag. Til þess að það markmið náist þurfum við að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta er mikilvægt verkefni. Við erum lítið land og eins og segja má breytast hlutirnir hér oft á svipstundu. Gríðarleg fjölgun ferðamanna hefur verið jákvæð að stærstu leyti, en við upplifum mikla vaxtarverki. Við þurfum að bregðast við, vinna hratt og vel og vanda okkur svo við getum tryggt það að ferðamennska verði áfram stór þáttur í velferð þjóðarinnar og samfélagsins til framtíðar.