149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur skýrsluna. Eins vil ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir skýrslubeiðnina og hið kærkomna tækifæri sem við fáum til að ræða þetta mál.

Ég velti fyrir mér því sem sagt er í skýrslunni, að ferðamennskan geti verið farin að skerða jákvæða upplifun af landinu og þannig farin að vinna gegn sjálfri sér. Það má auðvitað ekki gerast. Ég tel mikilvægt að ná jafnvægi milli verndar og nýtingar. Það þarf landvörslu og upplýsingaráðgjöf og jafnvel harðari aðgerðir með stjórnun ef annað dugar ekki til. Þótt við séum flest á móti boðum og bönnum þarf kannski að grípa til örþrifaráða, aðgangsstýringar, ítölu á svæði og annars slíks.

Það er mikilvægt að gera tillögu um hvernig koma megi í veg fyrir að einstaklingar og hópar erlendra og innlendra ferðamanna geti ferðast um hálendi Íslands á ökutækjum og valdið óafturkræfum náttúruspjöllum vegna kunnáttuleysis og vanþekkingar á viðkvæmu landi og gróðri í viðkvæmustu náttúruperlum Íslands. Aðrar þjóðir láta slíkt ekki óáreitt.

Virðulegur forseti. Ferðamenn sem koma til landsins eru fyrst og fremst náttúruunnendur samkvæmt skoðanakönnunum, eins og flestir Íslendingar. Árlega berast þó fréttir af óafturkræfum náttúruspjöllum vegna utanvegaaksturs á hálendi Íslands. Það eru ekki ný sannindi að með aukinni umferð um hálendið verða fleiri alvarleg spjöll á náttúru landsins sem við verðum að vera á varðbergi gegn. Við Íslendingar verðum að fylgja því fordæmi og setja reglur um umgang á viðkvæmum svæðum, eins og flestar þjóðir gera sem vilja vernda náttúru landa sinna.

Sú staðreynd hvernig landið okkar er auglýst á erlendum vettvangi skiptir lykilmáli. Í mörgum tilfellum er gefið til kynna í greinum um hálendisferðir og auglýsingar um landið í erlendum blöðum að á hálendi Íslands geti ferðamenn ekið um ósnert víðerni án nokkurra hindrana. Afleiðingar slíkrar umfjöllunar koma í ljós þegar bjarga þarf ferðamönnum og ökutækjum þeirra langt utan vega eða slóða á hálendinu. Ferðamenn telji sig í góðri trú fara að reglum.

Tugir frétta í fjölmiðlum á hverju ári segja frá ótrúlegum náttúruspjöllum sem orsakast af vanþekkingu en líka af einbeittum brotavilja. Þá þróun verður að stöðva. Eftir slíkar Bjarmalandsferðir þarf miklar tilfæringar og atgang til að björgunarsveitir nái bílum, trukkum og jafnvel hópferðabifreiðum ferðamanna eftir óafturkræf spjöll á viðkvæmri náttúru og þeir greiða engar sektir til baka. Það er því mikilvægt að setja strangar reglur um ferðir einstaklinga og hópa á ökutækjum um hálendi Íslands.

Virðulegi forseti. Til að sporna við þarf víðtækt samráð hagsmunaaðila og skýrar reglur. Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa, leiðsögumenn, lögregla og björgunarsveitir, bílaleigur og landeigendur eru lykilaðilar í vernd hálendisins. Þá er mikilvægt að líta til reynslu annarra þjóða sem sett hafa strangar reglur um ferðaáætlun, tryggingar og innlenda fararstjórn, leyfi og umgengni og ferðir um víðerni og verndarsvæði.

Ég vil skoða hvort sérstök gjaldtaka og það að lágmarksþekkingar sé krafist vegna ferða um hálendi landsins verði tekið upp. Slík gjaldtaka eða tryggingarfé fyrir ferðir í atvinnuskyni ættu að öllu leyti að standa undir kostnaði við eftirlit og björgun fólks sem oft tekur mikla áhættu á ferðum sínum og þarf að bjarga með ærnum tilkostnaði. Leiðsögn þar til bærra manna ætti að vera skilyrði við ferðir í atvinnuskyni. Gjaldtaka gæti einnig átt við um við ferðamenn sem ganga um hálendið, fjöll og jökla, í hópum eða einir síns liðs á öllum tímum ársins. Það er krafa hjá öðrum þjóðum. Með gjaldtöku á ég við ferðir sem fólk greiðir fyrir og eru farnar í atvinnuskyni.

Virðulegur forseti. Ég hyggst flytja þingsályktunartillögu sem fjallar um þau atriði.