149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýrsluna. Ferðaþjónustan er einn af burðarásum í efnahagslífi Íslands og mikilvægt að styrkja alla innviði sem hún grundvallast á og nýtir. Við sjáum þess merki, eins og fram kemur í skýrslu hæstv. ráðherra, að ágangur á vissa staði er orðinn of mikill sem segir okkur að við þurfum að gera betur í því að stýra og vakta þau ákveðnu svæði. Tryggja þarf í samvinnu við hagsmunaaðila að greinin skili eðlilegu framlagi til samfélagsins til uppbyggingar og verndar svo ekki fari illa.

Það er áhugavert að árstíðasveifla í komum ferðamanna hefur minnkað á undanförnum árum. Það segir okkur að eitthvað höfum við gert rétt. Hins vegar eru nokkrir hlutir sem við þurfum að bæta okkur í og einn þeirra er dreifing ferðamanna um landið allt með markvissum aðgerðum.

Við þingmenn Norðausturkjördæmis sátum fund með hagaðilum í kjördæmavikunni sem bentu okkur á þá staðreynd að það markaðsefni sem enn er notast við sýni myndskeið frá stöðum sem við getum sagt að séu hreinlega átroðnir. Þeir eru uppseldir, ágangur er of mikill. Þetta eru sérstaklega staðir á suðvesturhorni landsins.

Stuðla þarf að dreifingu ferðamanna um allt landið með markvissum aðgerðum, eins og ég sagði áður, og við þurfum aukafjárframlög til þess að byggja upp. Við þurfum að þróa kynningarstarf á hinum fráfarnari svæðum. Það verkfæri sem við höfum núna eru markaðsstofur landshlutanna og við þurfum að nota þær og efla sérstaklega.

Ég ætla að enda á því að tala um flugvelli landsins. Keflavíkurflugvöllur skipar vissulega sérstakan sess og við höfum ágætisupplýsingar um tölfræðina í sambandi við hann. Hins vegar er ég dálítið hissa ef rétt er sem fram kemur í skýrslunni að í ferðavenjukönnun Ferðamálastofu séu ekki upplýsingar um ferðamenn sem koma um aðra millilandaflugvelli eða með Norrænu auk þess sem farþegar skemmtiferðaskipa séu ekki meðtaldir og dvalarlengd þeirra ekki reiknuð inn í dæmið.

Ef þetta er rétt er það umhugsunarefni.