149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[17:50]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þetta mál um þolmörk ferðamennsku. Það er ekki unnt að segja að við höfum orðið hissa yfir því að ferðamenn hafi uppgötvað landið okkar nýlega, við sem höfum hópast öxl í öxl til sólarlanda og dvalið þar í mannmergðinni á nokkrum hekturum af strönd. Nei, við urðum kannski ekki hissa en við vorum nokkra stund að átta okkur á því og erum jafnvel ekki enn alveg búin að kveikja á því að Ísland hafi verið uppgötvað.

Við erum svolítið svona, Íslendingar. Það kemur skyndilega síld og þá eru allir kallaðir til og reynt að vinna úr aflanum. Fólk vonar það besta þótt oft fari svo að afraksturinn verði minni en ef farið hefði verið örlítið hægar í sakirnar. Þannig hefur það verið hingað til með ferðaþjónustuna. En við verðum að standa vörð um okkar viðkvæmu og fallegu náttúru.

Hér er svo sannarlega þörf á skýrri stefnumótun og framtíðarsýn er nauðsynleg í þeim efnum. Auðvitað fagna ég því að stjórnvöld séu að vakna til vitundar um aðgerðir og séu farin að sýna meiri fyrirhyggju. Komið hefur fram að margir ferðamannastaðir eru komnir að þolmörkum hvað ásókn og átroðning varðar. Ójöfn dreifing ferðamanna um landið veldur miklu álagi á suma ferðamannastaði. Þeir eru aðallega staðsettir í nágrenni við Suðvesturhorn landsins og ber þá fyrst að nefna Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Aðra staði má einnig nefna, svo sem Landmannalaugar sem eru staðsettar á viðkvæmu svæði gróðurfarslega séð og lítið þarf út af að bregða svo að ekki stórsjái á svæðinu. Auðvitað mætti nefna marga aðra staði sem eru vinsælir og eru í hættu vegna ágangs fólks.

Herra forseti. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við því að sumir staðanna eru afar viðkvæmir svo ekki sé minnst á lítt kunna afskekkta staði sem skyndilega fá mikla athygli á netinu, án nokkurs fyrirvara, og þangað mæta hundruð gesta þar sem ekki sást sála nokkrum dögum fyrr.

Sífellt þarf að hafa í huga þá viðkvæmu náttúru hérlendis sem erlendir ferðamenn þekkja ekki frá heimaslóðum sínum. Þannig skiptir máli að skilgreina sjálfstætt þolmörk hvers einstaks staðar. Ferðamenn og upplifun þeirra skerðist ef þeir eru of margir á sama staðnum á sama tíma. Augljóst er að fjárfesta þarf í auknum mæli í mannvirkjum á ferðamannastöðum svo að unnt sé að taka við þeim fjölda sem þangað streymir. En það er ekki nóg, stjórnvöld þurfa einnig að fjárfesta í samgöngubótum vítt og breitt um landið svo að hinn þungi straumur komist greiðar leiðar sinnar um landið. Þar vil ég taka sem dæmi Vestmannaeyjar þar sem ónógar samgöngur standa í vegi fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu.

Herra forseti. Það hefur tekist betur en nokkurn grunaði fyrir fram að benda ferðamönnum á að hingað sé einnig stórkostlegt að koma að vetri til. Engan hefði grunað það fyrir 20 árum að nokkur gæti hugsað sér að hýrast hér í kulda og trekki, en raunin varð önnur. Það bendir til þess að vel sé mögulegt með samstilltu átaki að beina straumi ferðamanna í ákveðnar áttir.

Um leið og ég ræði um dreifingu ferðamanna á mismunandi árstíma vil ég brýna fyrir stjórnvöldum að bráðnauðsynlegt er að fjölga þeim flugvöllum sem eru í stakk búnir til að taka við hluta af álaginu af millilandafluginu og straumi ferðamanna þaðan og þá í fleiri landshluta. Þannig má dreifa álagi á ferðamönnum á fleiri staði en aðeins á suðvesturhornið. Þar vil ég nefna staði eins og Akureyri, Egilsstaði, Ísafjörð, Hornafjörð og Vestmannaeyjar.