149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

þolmörk ferðamennsku, munnleg skýrsla ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

[18:12]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir og vildi að ég hefði miklu fleiri mínútur en þær tvær sem ég hef, en ég ætla að reyna að koma að nokkrum atriðum.

Nefnt var að skýrslan sýndi að rannsóknirnar væru unnar á tilviljunarkenndan hátt og ég tek undir það. Það er þess vegna sem við erum með áherslu á áreiðanleg gögn, rannsóknir og litlu Hafró. Þess vegna hefur Ferðamálastofu nú verið falin yfirsýn með lögum, ekki þannig að Ferðamálastofa muni vinna allar rannsóknirnar heldur hafa þá yfirsýn sem þörf er á.

Stóra verkefnið um álagsmat eða þolmörk umhverfis, innviða og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna finnst mér fanga það sem mjög margir nefna að skorti. Hér er fyrsti áfangi tilbúinn og ég vonast til þess að þingmenn lesi það í gegn og kynni sér.

Komið er inn á aðrar tegundir innviða og að við séum komin að þolmörkum á ýmsum stöðum. Það eru einmitt vísar um vegi, flugvelli, hafnir, fráveitur, náttúrustaði, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, húsnæðismarkað, vinnumarkað, ferðamannapúls o.s.frv. Við erum að kortleggja það nákvæmlega og svo er fagáfangi tvö að finna út úr því hvar við erum stödd og hvað þurfi að gera til þess að bæta úr.

Varðandi eigendastefnu Isavia ætla ég að segja að ég er sammála því sem hv. þingmenn nefndu, að ferðamálaráðherra eigi að hafa stjórnarmann. Mín skoðun á því hvernig stjórnin er skipuð er sú að ég myndi vilja sjá ákveðnar breytingar á því.

Ég er mjög ánægð að heyra áhugann og ákafann á ýmsum málum, sérstaklega þegar kemur að markvissri stýringu sem við eigum mikið eftir í, en ég legg líka áherslu á að við erum með ákveðna stýringu nú þegar á ýmsum sviðum, innan þjóðgarða, þegar við byggjum upp innviði, í landsáætluninni, þar er það meginstefið.

Varðandi gjaldtöku erum við með gistináttaskatt, við erum búin breyta umferðarlögum þar sem bílastæðagjöld eru heimil og við erum með gjöld innan þjóðgarða. Ég ætla að segja þá skoðun mína á gjaldtöku almennt og þeirri umræðu að ég berst ekki sérstaklega fyrir gjaldtöku heldur fyrir almennilegri stýringu og skýrum reglum í ferðaþjónustu. Stundum koma gjöld þar við sögu og munu örugglega gera í auknum mæli.

Ég hlakka þess vegna til að kynna áformin ef við tökum fyrir einhvern einn stað og reynum á regluverkið eins og það er núna og sjáum hvað við þurfum að gera til að breyta því svo að við náum betri árangri.

Að lokum langar mig að þakka starfsmönnum ráðuneytisins, skrifstofu ferðamála, fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin.